Íslenski boltinn

Þróttur eltir FH og Haukar úr fallsæti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lið Hauka vann mikilvægan sigur í kvöld.
Lið Hauka vann mikilvægan sigur í kvöld. mynd/fésbókarsíða Hauka
Þróttur er stigi á eftir FH á toppnum í Inkasso-deild kvenna og Haukar lyftu sér frá botninum eftir stórsigur á Grindavík á heimavelli.

Þróttur tapaði toppslagnum gegn FH um síðustu helgi en þær gerðu sér lítið fyrir og unnu 5-1 sigur á Fjölni í kvöld. Þróttur komst í 4-0 áður en Fjölnir klóraði í bakkann áður en Þróttarar áttu síðasta orðið.

Þróttur er því í öðru sæti deildarinnar með átján stig en Fjölnir er í níunda og næst neðsta sæti deildarinnar með átta stig. Þær eru stigi á eftir Augnablik og Haukum.

Í sjónvarpssleik kvöldsins unnu Haukar 4-0 stórsigur á Grindavík. Hildur Karítas Gunnarsdóttir gerði tvö mörk og það síðara var einkar glæsilegt. Heiða Rakel Guðmundsdóttir og Dagrún Birta Karlsdóttir gerðu svo sitt hvort markið.

Haukarnir lyftu sér með sigrinum upp úr fallsæti og upp í sjöunda sætið en eru þó áfram stigi frá fallsæti. Grindavík er í sjötta sæti deildarinnar.

Afturelding vann 1-0 sigur á ÍA en markið skýtur Aftureldingu upp í þriðja sætið. Þær eru með þrettán stig en skilja Skagastúlkur eftir í fimmta sætinu með ellefu stig.

Það gengur ekki né rekur hjá ÍR sem er á botninum án stiga eftir 5-0 tap gegn Tindastól í kvöld. Tindastóll er í fjórða sæti deildarinnar með tólf stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×