Rakel Garðarsdóttir hefur fjallað mikið um umhverfismál og þá sérstaklega matarsóun á Facebooksíðu sem heitir Vakandi. Á síðunni birtist reglulega umfjöllun eða fréttir um umhverfismál auk hagnýtra ráða til að auka nýtingu matvæla. Rakel er mikill talsmaður svokallaðs deilihagkerfis en hún ræddi það í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
„Deilihagkerfi er svona aftur til fortíðar kannski og það er akkúrat það sem þarf að gerast, við þurfum aðeins að breyta því hvernig við neytum og hvernig við framleiðum,“ sagði Rakel. „Þegar ég var lítil og kom að öskudegi þá fórum við og leigðum búninga, það var aldrei keypt, það voru bara búningaleigur Þetta er farið að dúkka upp aftur, stóru tískurisarnir eru farnir að vera með útleigu á fatnaði.“
Sem dæmi um álíka þjónustu sem finnst hér á landi hér á landi nefndi Rakel Trendport, Extraloppuna og Barnaloppuna en það eru allt þjónustur sem bjóða fólki upp á að leigja bás þar sem það getur selt föt án þess að þurfa að vera á staðnum.
Rakel nefndi einnig dæmi um snjallsímaforritið Olio, sem notað er í Bretlandi, þar sem hægt er að deila mat með fólki. Hægt er að deila afgöngum eða mat sem ekki verður nýttur.
„Þegar maður var fátækur námsmaður þá var maður svo úrræðagóður. Þá leigði maður alltaf með einhverjum og deildi öllu með einhverjum. Það fór einn í búðina kannski aðra hverja viku og keypti klósettpappír og öllu var deilt,“ sagði Rakel. „Þetta er eiginlega eina systemið sem gengur upp. Við erum alltaf að verða fleiri og fleiri og þessi offramleiðsla gengur ekki.“
Innlent