Innlent

Ærslabelgurinn líklega blásinn upp á morgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Ærslabelgurinn er við hlið Safnahússins í hjarta bæjarins.
Ærslabelgurinn er við hlið Safnahússins í hjarta bæjarins. Ísafjarðarbær
Minjastofnun hefur veitt Ísafjarðarbæ heimild til þess að klára viðgerðir á svokölluðum ærslabelg. Skilyrði fyrir því er að meira jarðrask en þegar hefur orðið vegna viðgerða á honum sé ekki áætlað. Belgurinn verður því kominn í gagnið annað kvöld, ef allt fer eftir áætlun.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, bæjarritara Ísafjarðar, við fyrirspurn staðarmiðilsins Bæjarins besta. Áætluð verklok við viðhald belgsins voru upphaflega miðuð við upphaf þessarar viku.

Ærslabelgurinn, sem komið var fyrir við hlið Safnahússins síðastliðið haust, er að sögn starfandi minjavarðar svæðisins innan við 100 metra frá friðlýstum fornminjum og lögum samkvæmt verði Minjastofnun því að gefa grænt ljóst á endurbæturnar.

Sjá einnig: Allt loft úr ísfirska ærslabelgnum

Belgþyrstir ærslaunnendur á Vestfjörðum ættu því að óbreyttu að geta tekið gleði sína á ný og fyrr en varir gætu þeir verið farnir að hoppa og skoppa sem enginn væri morgundagurinn.


Tengdar fréttir

Allt loft úr ísfirska ærslabelgnum

Minjastofnun hefur farið þess á leit við Ísafjarðarbæ að viðgerðir á svokölluðum ærslabelg á Eyrartúni verði stöðvaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×