Isavia hefur kært niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness í máli ALC gegn fyrirtækinu til Landsréttar.
Snýr kæran að þeirri niðurstöðu héraðsdóms að málskot til Landsréttar fresti ekki réttaráhrifum. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við fréttastofu.
Vill Isavia fá þeirri niðurstöðu dómsins hnekkt en dómurinn hafnaði kröfu Isavia um að málskot til Landsréttar fresti réttaráhrifum.
Samkvæmt því þarf því Isavia að afhenda ALC WOW air-vélina sem kyrrsett var við gjaldþrot flugfélagsins í mars síðastliðnum.
Héraðsdómur komst í dag að þeirri niðurstöðu að Isavia hefði einungis verið heimilt að kyrrsetja vélina vegna lendingargjalda og annarra gjalda sem tengdust notkun vélarinnar en ekki vegna heildarskulda WOW air við Isavia.
Í yfirlýsingu frá Isavia í morgun kom fram að félagið furði sig á niðurstöðu héraðsdóms. Sagði að niðurstaðan væri í miklu ósamræmi við fyrri umfjöllun Landsréttar um málið þar sem rétturinn hefði með mjög skýrum hætti lýst skoðun æðra dómsstigs á túlkun þess lagaákvæðis sem stuðst hefur verið við í umfjöllunu um málið.
„Þá teljum við verulega ámælisvert að beiðni um frestun réttaráhrifa sé hafnað í ljósi þeirra fjárhagslegu hagsmuna sem undir eru. Frestun réttaráhrifa hefði haft óveruleg áhrif á ALC en hefði tryggt eðlilega meðferð jafn mikilvægs máls fyrir æðra dómstigi,“ sagði í tilkynningunni.
Sagði þar einnig að með synjun héraðsdóms um frestun réttaráhrifa væri möguleiki Isavia til að fá endanlegan úrskurð fyrir fjölskipuðum dómi takmarkaður.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Isavia kærir til Landsréttar

Tengdar fréttir

Landsréttur úrskurðar öðru sinni vegna kyrrsettu vélarinnar
Landsréttur úrskurðaði í málinu í dag.

Neituðu að hlutast til um ákvarðanir Isavia
Tveimur dögum áður en WOW fór í þrot höfnuðu fulltrúar þriggja ráðuneyta óskum stjórnar WOW um að "hlutast til um“ að Isavia félli frá heimild til að kyrrsetja leiguþotur. Átti sú ákvörðun að gilda í næstu þrjátíu daga

Héraðsdómur úrskurðar ALC í hag
Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag í máli bandaríska leigufélagsins ALC gegn Isavia. Niðurstaða Héraðsdóms var sú að Isavia hafi einungis verið heimilt að kyrrsetja þotuna TF-GPA, sem ALC hafði leigt til WOW air, vegna skulda sem hvíldu á þotunni, en ekki vegna heildarskulda WOW air við Isavia.