Aðspurður hvort búið sé að leigja vélina út segist hann ekki vita til þess að búið sé að ganga endanlega frá því hvert næsta verkefni verður.
Hins vegar hafi verið búið að leigja hana út á sínum tíma og semja um það við WOW air áður en flugfélagið fór í gjaldþrot að þotan færi í annað verkefni.
„En það þurfti að vinda ofan af þeim samningum þar sem það var óvissa um það hvenær þotan yrði laus,“ segir Oddur.
„Isavia þarf að endurskoða sín vinnubrögð“
Hann segir næstu skref í málinu hvað varðar ALC vera þau að taka utan um það hvert tjón félagsins er vegna þvingunaraðgerða Isavia.„Og eftir atvikum taka ákvörðun um að sækja það tjón í skaðabótamáli gegn Isavia.“
Oddur segir ekki liggja fyrir endanleg samantekt á því hvað tjónið er en miðað við þær forsendur sem núna liggja fyrir virðist það vera vel á annað hundrað milljónir króna.
Það er umtalsvert hærri fjárhæð en sú sem ALC þurfti að greiða Isavia samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness en það voru 87 milljónir króna.
Spurður út í fordæmisgildi þessa máls segir Oddur að í sínum huga sé að minnsta kosti tvennt alveg ljóst.
„Það er í fyrsta lagi að Isavia þarf að endurskoða sín vinnubrögð. Í öðru lagi það að íslensk stjórnvöld og löggjafinn þurfa að taka til endurskoðunar þær heimildir sem Isavia hefur til að þvinga fram greiðslu á notendagjöldum, bæði hvað varðar umfang þeirra og til hverra þær taka og hvernig þeim skuli beitt, og þó fyrr hefði verið,“ segir Oddur.