Innlent

„Það þarf enga andskotans nefnd“

Jakob Bjarnar og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Vinstri græn eru fordæmd vegna máls afgönsku feðganna sem og mála annarra afgangskra barna sem vísa á úr landi.
Vinstri græn eru fordæmd vegna máls afgönsku feðganna sem og mála annarra afgangskra barna sem vísa á úr landi.
Brotsjór gengur nú yfir Vinstri græna vegna mála afgangskra barna sem til stendur að vísa úr landi.

Þar á meðal eru afgönsku drengirnir Mahdi og Ali Sarwary sem vísa átti úr landi fyrr í vikunni ásamt föður þeirra en Vísir sem og aðrir miðlar hafa fjallað ítarlega um málið.

Brottvísun þeirra var frestað vegna mikils kvíða hjá öðrum drengnum en enn á þó að vísa feðgunum úr landi til Grikklands þar sem þeir hafa fengið alþjóðlega vernd.

Stjórnvöld eru fordæmd vegna aðgerðaleysis og vesaldóms í málum flóttabarna en einkum fá Vinstri grænir það óþvegið. Þingmenn flokksins eru sakaðir um aumingjaskap og tvískinnung; þau eru fordæmd afdráttarlaust og ákaft – er óhætt að segja.

Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna lagði orð í belg í gærkvöldi á Facebook-síðu sinni en uppskar ýmist reiði eða háðsglósur. Í stuttum pistli játar hann á sig vanþekkingu á málinu, verandi í útlöndum og fjarri fréttum, en þetta sé ömurlegt.

Páll Baldvin Baldvinsson rithöfundur er einn af þeim sem blandar sér í umræðuna við Facebook-færslu Kolbeins. Visir/GVA

Framkvæmd laganna sérstakt mál

„Útlendingalögin voru samþykkt í þverpólitískri sátt. Framkvæmd þeirra er svo sérstakt mál. Þingmannanefnd var skipuð til að fylgjast með framkvæmdinni,“ skrifar Kolbeinn.

„Við vorum mörg sem bundum vonir við þá nefnd, biðum eftir henni og vísuðum til hennar í ræðu og riti. Það er löngu orðið tímabært að hún fari yfir framkvæmd laganna, ekki síst það sem að börnum snýr. Ráðherra málaflokksins og Alþingi bera þá ábyrgð og það er ekki eftir neinu að bíða.“

Hafi Kolbeinn viljað lægja öldur varð honum ekki að ósk sinni.

„Hvers kyns dulur eruð þið Kolbeinn,“ segir til dæmis Páll Baldvin Baldvinsson rithöfundur í athugasemd við pistil Kolbeins.

„Þið sitjið á borðstokknum og horfið á fólkið, karla, konur og börn sogast undir og gerið ekki neitt. Megi þessi andlit fylgja ykkur fram á grafarbakkann, hvar sem þið verðið. Drukknandi manni skal ég ekki bjarga fyrst að reglugerðin segir það.“





Þvílíkur skítabrandari sem þessi flokkur er orðinn

Magnús Guðmundsson blaðamaður er reiður: „Í útlöndum og fjarri fréttum er í besta falli pínleg afsökun. Þetta er VG og þingmönnum flokksins öllum til háborinnar skammar,“ skrifar Magnús sem alla jafna er dagfarsprúður maður.

 

Á Facebook-síðu sína segir hann svo að Kolbeinn hafi ákveðið að gera sig opinberlega að fífli með ummælum sínum með því að skáka í því skjólinu að hann hafi ekki fylgst með fréttum verandi í útlöndum.

„Það er kannski skárra en þykjast hvorki sjá né heyra og þegja þunnu hljóði eins og „Vinstri græn eru í ríkisstjórn m.a. sökum þess að þau hafa sagt kjósendum sínum að þau hafi mannréttindi í hávegum. Þau hafa líka stundum áhyggjur af ástandinu í öðrum löndum og senda frá sér ályktanir. Hvílíkur skítabrandari sem þessi flokkur er orðinn, allur sem einn!“





Vilja standa fyrir mannúð á tyllidögum

Þannig ganga skammirnar yfir Kolbein og Vinstri græna og mætti draga til fjölda dæma um það. Merkja má verulega reiði vegna málsins á samfélagsmiðlum. Vitnað er í orð Katrínar Jakobsdóttur um málaflokkinn og fullyrt að hún sé ómerkingur.

„Hvernig geta Katrín Jakobsdóttir og Vinstri Græn horft á þetta aðgerðarlaust?“ spyr Einar Steingrímsson stærðfræðingur á sinni síðu.

Á síðu Kolbeins segir Ingunn Loftsdóttir verkfræðingur að á tyllidögum hrósi „Vg sér fyrir að standa fyrir mannúð – þið hafið brugðist þeim málaflokki frá a til ö í núverandi ríkisstjórn. En það er ekki of seint að breyta um kúrs – það krefst hugrekkis og þors. Ekki nefndar.“

Þórunn Ólafsdóttir hefur barist fyrir réttindum flóttafólks í mörg ár og meðal annars starfað með flóttafólki í Grikklandi.

Slítið þessu stjórnarsamstarfi

Þórunn Ólafsdóttir, stofnandi samtakanna Akkeri sem starfa í þágu flóttamanna, segir í athugasemd við færslu Kolbeins:

„Það er fátt verra í þessum málum en að sjá fólk í valdastöðum kvarta undan vanmætti gagnvart kerfi sem það á þátt í að stjórna.

Slítið þá þessu andskotans stjórnarsamstarfi, ef það er það sem til þarf, og ykkur líður raunverulega illa með að svona sé farið með börn á ykkar vakt.

Það hjálpar þessum börnum ekki neitt að stjórnarþingmenn séu á einhverjum bömmer á samfélagsmiðlum án þess að ætla sér að stöðva þetta kjaftæði.

Þetta mál er líka bara toppurinn á ísjakanum, þau sem aldrei rata í fjölmiðla eru mörg jafn grafalvarleg, en fólkið á bakvið þau hefur ekki þrek eða stuðningsnet til að leggja líf sitt í hendur almennings á þennan hátt. Lagið þetta.“

Forsætisráðherra sést hér blása á afmæliskertið þegar ríkisstjórnin hélt upp á eins árs afmælið sitt. í bakgrunni sést Sigríður Á. Andersen sem þá var dómsmálaráðherra en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir gegnir nú því embætti þar sem Sigríður sagði af sér vegna Landsréttarmálsins.vísir/vilhelm

Grjóthart bréf Ásdísar

Ásdís Ólafsdóttir, samskiptastjóri hjá alþjóðasamtökunum Crisis Group, hefur svo ritað Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri Grænna, sem og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, dómsmálaráðherra, bréf þar sem hún biðlar til þeirra og skorar á að hætta að beita Dyflinnarreglugerðinni í málum barna sem eru á flótta.

„Ég er þess fullviss að þú veist jafnvel og ég að forsendur reglugerðarinnar eru löngu brostnar þar sem er Grikkland er ekki fært um að uppfylla Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það þýðir að þessi börn sem nú eru á Íslandi munu ekki njóta öruggs skjóls verði þau send úr landi. Þau munu ekki hafa aðgang að menntun, læknisþjónustu og félagslegum stuðningi líkt og þau gera nú þegar á Íslandi,“ segir meðal annars í bréfi Ásdísar til ráðherranna.





Inga Björk Bjarnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingar, hvetur svo fólk til þess að senda Katrínu, Þórdísi, kærunefnd útlendingamála og Útlendingastofnun tölvupósta:

„Já og auðvitað á forsætisráðherra líka: katrinja@althingi — hún stýrir þessari ríkisstjórn sem hefur svo fjandsamlega stefnu í garð barna á flótta.“



Ósköp er þetta aumt

Illugi Jökulsson rithöfundur bendir á undirskriftasöfnunar sem efnt hefur verið til, ákall til stjórnvalda í málum afgönsku feðgunum en Illugi telur þetta lýsa ótrúlegum aumingjaskap, og vísar til áðurnefndra orða Kolbeins um málið líkt og þeir Páll og Magnús.

„Og hans ráð til úrbóta þegar það er dagaspursmál hvernær a.m.k. þremur börnum verður vísað út í algjöra óvissu? Jú, stofna nefnd. Ég ætla að endurtaka þetta hægt: HANN VILL LÁTA STOFNA NEFND.“

Enn einn og annar er Eiríkur Rögnvaldsson íslenskufræðingur tekur afdráttarlaust undir með Illuga sinni Facebooksíðu:

„Ósköp er það samt aumt - það á að setja málið í nefnd. Það bjargar ekki þeim börnum sem á að senda úr landi á næstu dögum. Það þarf enga andskotans nefnd. Það þarf bara að stöðva þessar brottvísanir strax, í stað þess að brjóta börn niður andlega.“






Tengdar fréttir

Drengurinn kominn með tíma á BUGL

Tíu ára afganskur drengur sem vísa átti úr landi í gærkvöldi ásamt föður sínum og yngri bróður hefur fengið tíma á BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, á morgun.

Brottvísun afgangskra feðga frestað

Brottvísun föður og tveggja sona hans sem framfylgja átti í gærkvöldi var frestað sökum andlegs ástands annars drengsins en þeir eru níu og tíu ára gamlir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×