Viðskipti innlent

Sýn kaupir Endor

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar. Sýn hf.
Sýn hefur gengið frá samkomulagi um kaup á Endor með fyrirvörum svo sem um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki eftirlitsaðila. Kaupin verða væntanlega frágengin í ágúst 2019, þegar áreiðanleikakönnun lýkur. Svo segir í tilkynningu frá Sýn.

Endor starfar alþjóðlega í rekstri ofurtölva (e. High Performance Computing) og ætlun Sýnar er, samkvæmt því sem segir í tilkynningunni, að nýta betur Vodafone og alþjóðlegar tengingar fyrirtækisins í að laða til sín erlenda viðskiptavini. Vodafone á Íslandi hefur rekið gagnaver um langt skeið og tekur nú þátt í uppbyggingu fyrsta hágæða gagnavers Reykjavíkur, Reykjavik DC.

„Vöxturinn í okkar geira er gríðarlegur. Með samstarfi við Vodafone á Íslandi, og víðar, eflist fyrirtækið mjög mikið og við getum sótt enn meira inná þennan spennandi hraðvaxandi markað,“ segir Gunnar Guðjónsson, stofnandi og forstjóri Endor. 

„Vodafone á Íslandi á mjög öfluga innviði og hefur mikla reynslu og þekkingu af rekstri fjarskiptaneta og gagnavera. Með kaupum á Endor opnast gátt inná alþjóðlegan markað sem Endor hefur náð miklum árangri á síðustu 5 ár. Við erum mjög spennt fyrir þeim tækifærum sem myndast við þetta“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar hf.

Vísir er í eigu Sýnar.


Tengdar fréttir

Óskabein kaupir fjórðungshlut í Endor

Fjárfestingin er liður í uppbyggingu Endor sem alþjóðlegs félags, en eigendur og stjórnendur stefna á markaði í Skandinavíu og Norður-Evrópu á komandi misserum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×