Innlent

Grunur um skipulagðan hjólaþjófnað

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Klippt á lása.
Klippt á lása. Nordicphotos/Getty.
Undanfarna mánuði hefur reiðhjólaþjófnaður færst í vöxt og grunur leikur á að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Klippt er á lása og brotist inn í reiðhjólageymslur til að stela hjólunum.

Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þjófnaður með þessum aðferðum hafi aukist undanfarið ár. Þó að ekki hafi tekist að sanna að um skipulagða starfsemi sé að ræða þá sé sterkur grunur um það.

„Við erum einmitt núna að rannsaka mál sem ýjar að því. Sá sakborningur sem við höfum yfirheyrt vill samt lítið gefa upp.“

Um er að ræða erlenda aðila og grunur leikur á að hjólunum sé komið úr landi í gámum. Áhugi þjófanna beinist fyrst og fremst að dýrari hjólum. Fislétt koltrefja­reiðhjól geta kostað mörg hundruð þúsund krónur og jafnvel meira en milljón.

Guðmundur mælir með því að fólk sem á mjög dýr hjól, eða hjól sem því þykir vænt um, geymi þau inni hjá sér.

„Það er lítið endurheimt af þessum stolnu hjólum,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×