Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra breytti í gær reglugerð um útlendinga sem veitir nú Útlendingastofnun heimild, á grundvelli sérstakrar beiðni eða að eigin frumkvæði, til að taka til efnislegrar meðferðar mál barna sem hlotið hafa vernd í öðru ríki, ef það eru meira en tíu mánuðir liðnir frá því að umsókn þeirra barst íslenskum stjórnvöldum.
Mál Sarwary-feðganna og Safari-fjölskyldunnar falla undir reglugerðina, sem hefur þegar tekið gildi, að sögn lögmanns þeirra, Magnúsar D. Norðdahl.
Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um mál þeirra Asadullah, Ali og Madhi Sawary síðustu mánuði. Til stóð að vísa þeim úr landi á mánudaginn en hætt var við það eftir að annar drengjanna fékk taugaáfall vegna kvíða. Hefur hann nú fengið viðeigandi aðstoð.
Asadullah segist þakklátur öllum þeim sem hafa vakið athygli á máli hans. Hann og drengirnir, Ali og Madhi, voru viðstaddir fjölmenn mótmæli sem fóru fram á fimmtudaginn.
„Þeir voru mjög glaðir þegar ég sagði þeim að allir sem væru viðstaddir væru þar til að styðja þá og vildu halda þeim á Íslandi,“ segir Asadullah.

