Innlent

Dómurinn ekki í sam­ræmi við aðal­kröfu á­kæru­valdsins

Magnús Hlynur Hreiðarsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá vettvangi brunans.
Frá vettvangi brunans. vísir/egill
Dómur Héraðsdóms Suðurlands yfir Vigfúsi Ólafssyni vegna brunans á Selfossi er ekki í samræmi við aðalkröfu ákæruvaldsins í málinu. Vigfús var ákærður fyrir manndráp en dæmdur fyrir manndráp af gáleysi og stórfellda brennu. Karl og kona létust í brunanum í október í fyrra.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins.

Hún sagði í samtali við fréttastofu eftir að dómur var kveðinn upp að nú þurfi að fara vel yfir rökstuðning dómsins fyrir niðurstöðunni og meta svo framhaldið. Það er síðan ríkissaksóknari sem tekur ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.

Kolbrún fór ekki fram á sérstaka refsingu við aðalmeðferð málsins en nefndi að hæfileg refsing fyrir að valda dauða tveggja einstaklinga væri að hámarki 18 ár.

„Já, sækjandi nefndi það að 18 ár væru kannski hámarksrefsing ef sakfellt væri fyrir aðalkröfuna. Það er töluverður munur á refsingu fyrir manndráp af ásetningi og manndráp af gáleysi þannig að það er auðvitað munur þegar farið er niður í varakröfu,“ sagði Kolbrún í Héraðsdómi Suðurlands í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×