Fjögur systkini og fjölskyldur þeirra standa að rekstrinum þar sem má til að mynda finna vinsæla ísbúð, veitingastað, hestaleigu, hótelgistingu auk þess sem gestir geta klappað hinum ýmsu húsdýrum. Þar á meðal kálfum en saursýni úr kálfum á bænum kemur heim og saman við bakteríuna sem sýkti börnin.
Björgvin segir að lokað hafi verið fyrir aðgang að kálfastíunni þann 4. júlí í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Matvælastofnun. Kálfarnir hafi verið sendir í sóttkví.

„Allar niðurstöður sem við höfum fengið úr matvælum, ís og öðru slíkur eru jákvæðar fyrir okkur.“
Sá rekstur sé því enn í gangi.
Óvíst hvernig smitið barst í börnin
Í tilkynningu sem Landlæknir sendi frá sér upp úr hádegi segir að ekki sé vitað með vissu hvernig smitið barst í börnin. Frekari rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum á staðnum standi enn yfir.Björgvin segir málið hafa fengið á fjölskylduna sem stendur að rekstrinum.
„Allir í fjölskyldunni eru miður sín yfir þessu. Það er erfitt að sjá þetta fyrir. Svona hlutir geta gerst. Við erum að reyna að vanda okkur eins og við höfum alltaf gert,“ segir Björgvin.

Vona það besta
Passað sé upp á alla vinnslu á matvælum og hafi mjólkurverkfræðingur verið starfseminni innan handar undanfarin ár og passað 100 prósent upp á allt hreinlæti. Þau sýni sem liggi fyrir hafi komið vel út.„Við eigum erfiðara með að hafa stjórn á því sem gerist utandyra þar sem dýrin eru hlaupandi um,“ segir Björgvin. Stór partur af afþreyingunni á Efstadal II sé að klappa dýrunum og þar njóti kálfarnir mikilla vinsælda.
„Vissulega er þetta leiðindamál fyrir alla og sérstaklega börnin sem lenda í því að sýkjast.“
Þau voni það besta og að allir nái sé sem fyrst.