Erlent

Utanríkisráðherrann segir Trump að sýna virðingu

Kjartan Kjartansson skrifar
Jeremy Hunt tók á móti Donald Trump í opinberri heimsókn þess síðarnefnd á Bretlandi í byrjun júní.
Jeremy Hunt tók á móti Donald Trump í opinberri heimsókn þess síðarnefnd á Bretlandi í byrjun júní. Vísir/EPA
Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands og annað leiðtogaefna Íhaldsflokksins, segir ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um breskan sendiherra og Theresu May forsætisráðherra dónaleg og röng gagnvart Bretlandi. Hvetur hann bandaríska forsetann til að sýna virðingu.

Trump hefur látið dæluna ganga um Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, á Twitter í dag og í gær eftir að breska blaðið Daily Mail birti frétt upp úr diplómataskjölum sem var lekið. Í þeim lýsti Darroch Bandaríkjaforseta sem „vanhæfum“ og ríkisstjórn hans sem „óstarfhæfri“.

Kallaði Trump sendiherrann meðal annars „mjög heimskan gaur“ og „oflátungslegt flón“ í röð tísta í dag. Af einhverjum ástæðum beindi Trump reiði sinni einnig að May forsætisráðherra og fann frammistöðu hennar í tengslum við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu flest til foráttu.

Hunt svaraði Trump á Twitter nú síðdegis. Þar sem vinir töluðu af hreinskilni ætlaði hann sér að gera það einnig.

„Þessi ummæli eru dónaleg og röng gagnvart forsætisráðherra okkar og landinu mínu. Dipómatar þínir gefa [Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna] persónulegar skoðanir sínar og það gera okkar líka!“ tísti Hunt.

Í tísti Trump sakaði hann May um að hafa hunsað ráð hans um hvernig hún ætti að semja við Evrópusambandið um Brexit og varið eigin „fíflalegu leið“ sem hafi verið „hörmung!“.

Hunt tísti til Trump þeir væru sammála honum um að bandalag Bandaríkjanna og Bretlands væri það besta í sögunni.

„En bandamenn verða að koma fram við hvor annan af virðingu eins og Theresa May hefur alltaf gert við þig,“ sagði utanríkisráðherrann.

Hét hann því ennfremur að nái hann kjöri sem leiðtogi Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra Bretlands ætli hann að halda Darroch sem sendiherra við Bandaríkin. Hunt er þó talinn ólíklegur til að sigra Boris Johnson í leiðtogakjörinu sem Trump hefur þegar lýst stuðningi við.


Tengdar fréttir

Trump og sendiherra Bretlands í hár saman

Kim Darroch, sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, er harðorður í garð Bandaríkjaforseta og segir hann og stjórn hans vera vanhæfa, klunnalega og óstarfhæfa.

Gagn­rýnir May og segir sendi­herrann vera heimskan

Donald Trump Bandaríkjaforseti fer ófögrum orðum um Kim Darroch, sendiherra Bretlands, og forsætisráðherrann Theresu May í kjölfar minnisblaðaleka sem birtist í breska dagblaðinu Mail on Sunday.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×