Helga Steffensen er Reykvíkingur ársins 2019. Venju samkvæmt renndi Helga fyrir lax í Elliðaánum í morgun, fyrst manna þetta veiðisumarið. Með henni í för voru Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. Það tók Helgu ekki nema 15 mínútur að setja í fyrsta laxinn, sem hún stillti sér upp með fyrir fjölda ljósmyndara sem saman var kominn við Elliðaárnar í morgun.
Helga stofnaði barnaleikhópinn Brúðubílinn árið 1980, en þar áður stýrði hún brúðuleikhúsinu Leikbrúðulandi. Sýningar Brúðubílsins eru sniðnar að þörfum yngstu borgaranna og eru oft þeirra fyrstu leikhúsferðir.
Á árunum 1987 – 1994 var Helga umsjónarmaður Stundarinnar okkar í Sjónvarpinu. Helga skrifaði bókina „Afmælisdagurinn hans Lilla” sem var gefin út árið 1984. Hún hefur líka haldið listsýningar bæði í Reykjavík og eina á Akureyri. Helga var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar, 2007 fyrir framlag til leiklistar og barnamenningar.
Reykvíkingur ársins var útnefndur í fyrsta sinn árið 2011. Tilgangurinn var að leita að einstaklingi sem hafði, með háttsemi sinni eða atferli, verið til fyrirmyndar á einhvern hátt og þakka fyrir þeirra framlag. Reykvíkingur ársins er útnefndur ár hvert.
Innlent