Erlent

Einn al­ræmdasti mafíu­foringi Ítalíu gengur laus

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Rocco Morabito tókst að flýja ásamt þremur samföngum sínum úr fangelsi í Úrúgvæ.
Rocco Morabito tókst að flýja ásamt þremur samföngum sínum úr fangelsi í Úrúgvæ. ASSOCIATED PRESS
Rocco Morabito, ítölskum mafíuforingja, hefur tekist að flýja úr fangelsi í Úrúgvæ þar sem hann beið þess að vera sendur til Ítalíu. Frá þessu greindi innanríkisráðuneyti Ítalíu og fjallað var um málið á vef breska ríkisútvarpsins BBC.

Úrúgvæ hafði samþykkt að framselja hinn illræmda fíkniefnasala, sem er þekktur sem „kókaín konungur Mílan,“ aftur til Ítalíu. Hann hefur verið einn eftirsóttasti flóttamaður Ítalíu síðan 1995 en hann var foringi ´Ndrangheta mafíunnar.

Morabito slapp ásamt þremur öðrum föngum í gegnum gat á þaki fangelsisins seint á sunnudag og rændu þeir peningum af eiganda nálægs sveitabæjar.

Árið 2017 var hann handtekinn nálægt Punta del Este í Úrúgvæ þar sem hann hafði búið undir fölsku nafni í um áratug. ´Ndrangheta mafían er upprunalega frá Kalabríu í suður Ítalíu og er talin stjórna allt að 80% kókaín dreifingu í Evrópu.

„Það er óþægileg tilhugsun og mjög alvarlegt að glæpamanni eins og Rocco Morabito, foringi ´Ndrangheta, hafi tekist að flýja fangelsi í Úrúgvæ meðan hann beið eftir því að vera framseldur til Ítalíu,“ sagði Matteo Salvini, innanríkisráðherra Ítalíu, í tilkynningu.

„Við munum halda áfram að leita Morabito, hvar sem hann er, til þess að setja hann í fangelsi eins og hann á skilið,“ bætti hann við.

Lögregla segir að Morabito, sem nú er 52 ára gamall, hafi verið á bak við það að smygla hundruðum kílóa af kókaíni frá Brasilíu til Ítalíu.

Framsal hans var byggt á grundvelli fyrri afbrota og sakfellinga vegna tengsla hans við skipulagða glæpastarfsemi og fíkniefnasmygl frekar en til að sæta nýjum réttarhöldum.

Morabito var handtekinn árið 2017 þegar hann dvaldi á hóteli í Montevideo, höfuðborg Úrúgvæ, en hann hafði búið í lúxus villu nálægt ferðamannastaðnum Punta del Este, austan höfuðborgarinnar.

Hann er núna á „rauðum lista“ hjá Interpol, Alþjóðalögreglunni, fyrir það að vera meðlimur glæpasamtaka sem smygluðu eiturlyfjum alþjóðlega á árunum 1988 til 1994, sagði í tilkynningu frá úrúgvæska innanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×