Erlent

Skip­stjóri björgunar­skipsins segir Evrópu­þjóðir hafa engan á­huga á að leysa vandann

Sylvía Hall skrifar
Carola Rackete, skipstjóri Sea-Watch 3, er harðorð í garð stjórnvalda í Evrópu.
Carola Rackete, skipstjóri Sea-Watch 3, er harðorð í garð stjórnvalda í Evrópu. Vísir/Getty
Carola Rackete, skipstjóri björgunarskipsins Sea-Watch 3, gagnrýnir stjórnvöld Evrópuþjóða fyrir aðgerðarleysi í málefnum flóttafólks og segir þau hafa engan áhuga á því að finna lausn á því ástandi sem nú ríkir. Reuters greinir frá.

Rackate er 31 árs Þjóðverji og hefur vakið athygli í ítölskum fjölmiðlum fyrir starf sitt í þágu flóttafólks. Hún gagnrýndi ákvörðun innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, um að loka höfnum landsins fyrir skipum félagasamtaka sem aðstoða flóttafólk harðlega eftir að hann sagði slíka starfsemi nátengda mansali.

Sjá einnig: Björgunarskip fullt af flóttafólki fór til Ítalíu þvert á tilmæli stjórnvalda

Hún segist hafa reynt árangurslaust að koma á samstarfi við yfirvöld víða um álfuna, þar á meðal Ítalíu, Þýskaland, Möltu og Frakkland. Þá hefur hún einnig falast eftir því að vinna með Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins án árangurs.

„Það hefur verið gert alveg ljóst að enginn þessara leikmanna hefur nokkurn áhuga á því að finna lausn og það hefur alltaf verið við sem stígum skrefin,“ sagði Rackete sem segir þau hafa verið yfirgefin.

42 um borð og engin lausn í sjónmáli

Sea-Watch 3 er nú staðsett fyrir utan ítölsku eyjuna Lampedusa en Rackete ákvað að sigla í átt að ítölsku strandlengjunni eftir fjórtán daga á ballarhafi. Hún hafi tekið þá ákvörðun þar sem hún taldi ítölsk neyðarsiglingalög heimila það.

Skipið hafði upphaflega sótt 53 flóttamenn við strendur Líbíu en ellefu hafa verið fjarlægðir af skipinu af ítölsku landhelgisgæslunni af heilsufarsástæðum. 

Talsmaður Sea-Watch, Giorgia Linardi, sagði á Twitter að skipið hefði reynt að komast að höfn en lögregla hefði stöðvað för þess og neyddist skipstjórinn því til að stöðva skipið við eyjuna.

Hópur þingmanna stjórnarandstöðunnar hafa farið um borð í skipið og neita að fara í land fyrr en málið verði leyst. Þá hefur Evrópusambandið biðlað til stjórnvalda landsins að finna skjóta lausn fyrir flóttafólkið.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×