Innlent

Jón Baldvin stefnir Aldísi, Sigmari og Ríkisútvarpinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóns Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra.
Jóns Baldvin Hannibalsson fyrrverandi ráðherra og sendiherra. Vísir/Vilhelm

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra Íslands, hefur stefnt Aldísi Schram dóttur sinni fyrir meiðyrði. Stundin greinir frá þessu en ráðherrann fyrrverandi stefnir auk þess Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni á Rás 2 og Ríkisútvarpinu. 



Jón Baldvin og eiginkona hans Bryndís Schram höfðu áður hótað því að stefna Ríkisútvarpinu og starfsmönnum þess. gáfu þau útvarpsstjóra Magnúsi Geir Þórðarsyni færi á að draga til baka „tilhæfulausar ásakanir, rangar fullyrðingar og meiðyrði“ í þeirra garð.



Aldís var til viðtals í Morgunútvarpinu á Rás 2 þann 17. janúar síðastliðinn. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður sem hefur farið mikinn í meiðyrðamálum fyrir dómstólum undanfarin misseri, gætir hagsmuna Jóns Baldvins. Mun vera stefnt fyrir á annan tug ummæla Aldísar í viðtalinu og fern ummæli Sigmars. Helga Seljan, sem stýrði þættinum ásamt Sigmari, er ekki stefnt.



Aldís fullyrti í viðtalinu að Jón Baldvin hefði misnotað aðstöðu sína sem sendiherra er hann óskaði eftir því að Aldís yrði nauðungarvistuð á geðdeild. Jón Baldvin hafi notað til þess bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington. Þá kom fram í þættinum að frásögnin væri staðfest í skjölum sem Ríkisútvarpið hefði undir höndum.



Þá lýsti Aldís því að Jón Baldvin hefði virst hafa haft vald, sem sendiherra og fyrrverandi ráðherra, til að hringja í lögreglu og í framhaldinu hafi hún umsvifalaust verið sett í járn og flutt á geðdeild.



Sjálf hefur Aldís lengi fullyrt að Jón Baldvin hafi brotið kynferðislega gegn fjölda kvenna sem og henni sjálfri. Á móti hefur fjölskylda hennar haldið því fram að hún sé veik á geði og frásagnir hennar skuli ekki taka trúanlegar.



Jón Baldvin tók til varnar í Silfrinu þann 3. febrúar og sagðist hafa verið dæmdur án dóms og laga. Þá hefur áður komið fram að Jón Baldvin segist hafa kært „slúðurbera“ um sig í fjölmiðlum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×