Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, hefur kært „slúðurbera í fjölmiðlum“ fyrir „tilhæfulausar sakargiftir, ranghermi og gróf meiðyrði“. Þetta kemur fram í neðanmálsgrein við aðsenda grein eftir hann sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Jón Baldvin hefur verið borinn þungum sökum um kynferðislega áreitni og ofbeldi síðustu misseri. Í janúar var sett á laggirnar bloggsíða með yfir 20 nafnlausum sögum kvenna af meintu kynferðisofbeldi Jóns Baldvins. Sögurnar eru fengnar úr sérstökum #MeToo-hóp um Jón Baldvin á Facebook. Ætla má að áðurnefndir „slúðurberar“ sem Jón Baldvin hefur kært séu úr hópi þessara kvenna.
Í grein sinni segist Jón Baldvin hafa eytt kvöldstund í að renna yfir sögurnar um sig í hópnum, sem hann kallar „stuðningshóp“ dóttur sinnar, Aldísar Schram. Sögurnar hafi hann skoðað vegna væntanlegra málaferla.
Þá segir Jón Baldvin í greininni að Aldís sé höfundur kvikmyndahandrits sem hann fékk í hendurnar árið 2006. Söguþráður handritsins, sem fjallaði um „hrokafullan valdamann sem misbeitti valdi sínu til að níðast á saklausum fórnarlömbum“, sé sá sami og í sögum #MeToo-kvennanna.
„Er þetta allt saman hrein tilviljun? Eða eru allar þessar sögur spunnar í sömu leiksmiðjunni?“ spyr Jón Baldvin.