Innlent

Hæðist að Hjörleifi fyrir að hafa kallað sig „fagra ferðamálaráðherrann með mörgu nöfnin“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Twitter-færsla Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur einkenndist af mikilli kaldhæðni.
Twitter-færsla Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur einkenndist af mikilli kaldhæðni. Vísir/Vilhelm
„Geggjað framúrstefnulegt trix að þykjast ekki - eða leggja ekki á sig að muna nafn á konu. Álag á þeim.“

Þetta skrifar Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og starfandi dómsmálaráðherra á Twitter-síðu sína í morgun en hún var greinilega ósátt við grein sem Hjörleifur Hallgrímsson, fyrrverandi ritstjóri Vikudags á Akureyri, birti í Morgunblaðinu í dag.

Í greininni kallar Hjörleifur Þórdísi Kolbrúnu „fagra ferðamálaráðherrann með mörgu nöfnin“.

Hann gagnrýnir harðlega framgöngu forystu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum og segir ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa „bullað út í eitt á fundum um að orkupakkinn skipti bara engu máli.“

Hjörleifur Hallgrímsson gagnrýnir framgöngu Sjálfstæðisflokksins í orkumálum.Vísir/Auðunn
Hjörleifur er langt frá því að vera sannfærður.

„Þeim láðist að geta þess í öllu bullinu að með því að samþykkja orkupakkann væri það byrjunin á að koma Íslandi í krumlurnar á ESB-skrímslinu og þar með væri fullveldi landsins verulega ógnað og við réðum engu lengur um hinn dýrmæta orkubúskap okkar.“

Í Twitter-færslunni nálgast Þórdís Kolbrún sneið Hallgríms með hæðni í ljósi þess að í sömu málsgrein og hann kallar Þórdísi Kolbrúnu „fagra ferðamálaráðherrann með mörgu nöfnin“ nafngreinir hann Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

„Þórdís Kolbrún eru 13 stafir. Guðlaugur Þór eru 12. Ég legg ekki meira á ykkur krakkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×