Fótbolti

Minnti á að íslenska liðið hefði þurft að bíða lengi eftir komuna frá Konya

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar vildi ekki tjá sig mikið um burstamálið svokallaða.
Aron Einar vildi ekki tjá sig mikið um burstamálið svokallaða. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson og Erik Hamrén, fyrirliði og þjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, voru spurðir út í burstamálið svokallaða á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag.

Tyrkir voru afar ósáttir við hversu lengi þeir þurftu að bíða á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins í gær.

Óþekktur maður, sem þóttist vera fjölmiðlamaður, rétti líka uppþvottabursta í andlit fyrirliða tyrkneska liðsins, Emre Belözoğlu, sem mæltist ekki vel fyrir hjá Tyrkjum. Íslenskir íþróttafréttamenn hafa orðið fyrir talsverðu ónæði vegna þess.

Hamrén sagðist ekkert geta sagt um uppákomuna á Laugardalsvelli í gær. Hann sé ekki rétti maðurinn til að svara þeim spurningum og hafi enga stjórn á þeim málum.

Aron Einar steig einnig varlega til jarðar og sagði íslenska liðið ekki hafa spáð mikið í burstamálið.

Fyrirliðinn sagði þó að íslenska liðið hefði þurft að bíða lengi eftir komuna frá Konya í Tyrklandi fyrir fjórum árum. Ísland og Tyrkland mættust þar í undankeppni EM 2016 og unnu Tyrkir 1-0 sigur.

„Vegabréfaeftirlitið var svipað og við fórum í gegnum ítarlega öryggisleit eins og gengur og gerist þegar þú kemur frá óvottuðum flugvelli,“ sagði Aron Einar.

Ísland er með sex stig í H-riðli undankeppni EM 2020 en Tyrkland níu stig, eða fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Leikur Íslands og Tyrklands hefst klukkan 18:45 annað kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×