Erlent

Samkynhneigð ekki lengur ólögleg í Botsvana

Baráttufólk fagnar sigri fyrir utan Hæstarétt Botsvana í Gaborone í dag.
Baráttufólk fagnar sigri fyrir utan Hæstarétt Botsvana í Gaborone í dag. Vísir/AP
Hæstiréttur Botsvana felldi úr gildi lög sem hefðu lagt allt að sjö ára fangelsi við samkynjasamböndum og taldi þau stangast á við stjórnarskrá í dag. Lögin hafa verið í gildi frá árinu 1965 þegar landið laut enn nýlendustjórn Breta.

Námsmaður höfðaði mál til að fá lögunum hnekkt á þeim forsendum að samfélagið væri breytt og samkynhneigð væri viðurkenndari í dag en þegar þau voru sett. Þrír dómarar dæmdu í málinu og komust þeir að samhljóða niðurstöðu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Mannleg reisn er skert þegar minnihlutahópar eru jaðarsettir,“ sagði Michael Elburu, dómari. Sagði hann lögin mismuna fólki. Kynhneigð væri ekki tískufyrirbæri heldur mikilvægur hluti af persónuleika fólks.

Samkynhneigð er enn bönnuð með lögum í 31 af 54 löndum Afríku. Dómstóll í Kenía staðfesti sambærileg lög sem mannréttindafrömuðir reyndu að hnekkja í síðasta mánuði. Þar liggur allt að fjórtán ára fangelsi við kynlífi samkynhneigðra.

Í Súdan, Sómalíu, Máritaníu og norðanverðri Nígeríu liggur dauðarefsing við kynlífi samkynhneigðra. Í Tansaníu geta samkynhneigðir átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsisvist.

Önnur lönd hafa færst í átt til frjálslyndis undanfarin ár. Þannig hafa lög gegn samkynhneigð verið felld úr gildi í Angóla, Mósambík og Seychelles-eyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×