Innlent

Skorradalshreppur kaupi þyrlupoka til slökkvistarfs

Sighvatur Jónsson skrifar
Í Skorradal má finna eina stærstu sumarhúsabyggð landsins.
Í Skorradal má finna eina stærstu sumarhúsabyggð landsins. Vísir/Jón Sigurður
Oddviti Skorradalshrepp segir til greina koma að hreppurinn kaupi svokallaðan þyrlupoka fyrir slökkvistarf á svæðinu ef upp koma gróðureldar í dalnum. Rætt sé um að hreppurinn og Borgarbyggð setji aukið fé í rekstur sameiginlegs slökkviliðs til að geta sinnt betur eftirliti og brunaæfingum.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum eftir mikla þurrka. Sérstök hætta er talin vera á eldum í Skorradal.

Skorradalshreppur leggur til einn slökkvibíl til slökkviliðs Borgarbyggðar. Sá bíll er staðsettur á Hvanneyri. Samningur er milli sveitarfélaganna um rekstur sameiginlegs slökkviliðs.

Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps, vísar gagnrýni sumarhúsaeiganda um engar brunaæfingar í Skorradal til slökkviliðs Borgarbyggðar. Árni segir að rætt sé um að sveitarfélögin auki fjárframlög til slökkviliðsins.

„Það þarf að taka til hendinni í því hvernig menn eiga að fjármagna slökkvilið til þess að auka öryggið. Svona aðstæður eins og eru núna ýta undir það að menn hugsi málið alveg upp á nýtt. Þó að það sé eldhætta á hverju einasta ári hér í Skorradal þegar það koma þurrkar þá þarf að halda vöku sinni alltaf. Menn eru meira á tánum af því að þetta ástand varir núna,“ segir Árni.

Árni Hjörleifsson er oddviti Skorradalshrepps.Fréttablaðið/Arnþór
Árni segir meira fé þurfa til að manna slökkviliðið á svæðinu. Tækin séu til staðar. Þó bendir hann á að í Reykjavík sé eini svokallaði þyrlupoki landsins staðsettur. Pokarnir eru notaðir til að flytja vatn með þyrlum og sleppa því yfir gróðurelda.

Hann segir til skoðunar hjá hreppnum að fjárfesta í einum poka sem kostar um eina til tvær milljónir króna.

„Við erum að ræða þetta eins og allt. Þessir pokar gera mikið gang í þessum stóru eldum sem eiga sér stað erlendis,“ segir Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps.

Hann segir Skorradalsvatn vera nógu djúpt í þessu samhengi en miðað er við að minnsta kosti tveggja metra dýpi við notkun þyrlupoka við slökkvistarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×