Viðskipti innlent

Icelandair fellir niður flug til Tampa

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Þrjár Boeing 737 MAX 8-þotur Icelandair á athafnasvæði Boeing í Seattle þar sem þær bíða þess að kyrrsetningu vélanna verði aflétt.
Þrjár Boeing 737 MAX 8-þotur Icelandair á athafnasvæði Boeing í Seattle þar sem þær bíða þess að kyrrsetningu vélanna verði aflétt. Getty/ David Ryder
Icelandair mun frá og með september næstkomandi hætta áætlunarflugi til Tampa á Florida, um tveimur árum eftir að áætlunarflug þangað hófst. Flugfélagið hefur flogið þangað fjórum sinnum í viku og flutti tæplega 25 þúsund farþega til Tampa í fyrra.

Icelandair mun áfram fljúga til Orlando á Florida, en um 140 kílómetrar eru þaðan til Tampa. Flogið verður 5 til 7 sinnum í viku. Flugfélagið flýgur jafnframt til 13 annarra áfangastaða í Bandaríkjunum.

„Við erum alltaf að vega og meta leiðarkerfið hjá okkur og höfum verið að endurskoða það að vera með tvo áfangastaði í Flórída. Þetta er niðurstaðan - við teljum það skila betri árangri að sameina þessa áfangastaði og einbeita okkur að Orlando,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Icelandair greindi stjórnendum alþjóðaflugvallarins í Tampa frá áformum sínum í síðasta mánuði, að sögn talsmanns flugvallarins, án þess þó að tilgreina hvað byggi að baki ákvörðuninni. Icelandair hefur þó þurft að hagræða í leiðakerfi sínu vegna kyrrsetningar á Boeing 737 MAX-þotunum, sem voru um 14 prósent flugvélaflota félagsins. Til að mynda flýgur Icelandair ekki lengur til Cleveland, Halifax og Nova Scotia.

Sjá einnig: Nýjasta þotan frá Airbus gæti orðið framtíðarvél Icelandair

Þrátt fyrir að Icelandair hafi aðeins flutt um 0,1 prósent af öllum farþegum sem fóru um alþjóðaflugvöllinn í Tampa þá eru efnhagsleg áhrif áætlunarflugsins sögð töluverð. Þannig er áætlað í þarlendum miðlum að áætlunarflugið hafi skapað 259 störf í Tampa og að bein efnahagleg áhrif þess hafi numið rúmið 14 milljónum dala, 1,7 milljörðum króna, árlega.

Fréttin var uppfærð eftir að svör bárust frá Icelandair


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×