Erlent

Bretlandsheimsókn Trump hefst í dag

Gunnar Reynir Valþórsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Trump-hjónin þegar þau yfirgáfu Hvíta húsið fyrir ferð sína austur yfir Atlantshafið.
Trump-hjónin þegar þau yfirgáfu Hvíta húsið fyrir ferð sína austur yfir Atlantshafið. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti kemur til Bretlands í opinbera heimsókn í dag en búist er við að forsetaflugvél hans lendi á Stansted-flugvelli klukkan átta að íslenskum tíma. Elísabet Englandsdrottning mun halda veislu honum til heiðurs í kvöld en Melania eiginkona hans er með í för.

Búist er við mótmælaöldu á Bretlandseyjum vegna heimsóknar Trump og hafa fjöldafundir verið skipulagðir í London, Manchester, Belfast, Birmingham og Nottingham, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Trump á að funda með Theresu May, forsætisráðherra, sem lætur af embætti í vikunni.

Trump hefur verið iðinn við að svara spurningum fréttamanna um Bretland upp á síðkastið og sagði hann á dögunum að Boris Johnson yrði frábær næsti leiðtogi landsins og þá sagði hann í viðtali við Sunday Times að Nigel Farage, formaður Brexit flokksins, ætti að fá sæti við samningaborðið hvað varðar útgöngu Breta úr ESB.

Þá lýsti hann Meghan Markle, hertogaynju af Sussex, sem ótuktarlegri í viðtali við enska sorpritið The Sun þegar borin voru undir hann ummæli hennar um að hún myndi flytja til Kanada yrði Trump forseti.

Síðar hélt Trump því fram að hann hefði aldrei lýst Markle þannig og kenndi „falsfréttum“ enn um þrátt fyrir að upptaka væri til af því þegar hann lét ummælin falla.


Tengdar fréttir

Borgarstjóri London líkir Trump við fasista 20. aldarinnar

Borgarstjóri Lundúna, Sadiq Khan, segir í grein sinni sem birtist í tímaritinu Observer í dag að orðræða Bandaríkjaforseta, Donald Trump, sé sú sama og fasistar 20. aldarinnar notuðu á þeim tíma. Grein borgarstjórans er rituð í tilefni af opinberri heimsókn Trump til Bretlands sem hefst á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×