Erlent

Kardináli áfrýjar barnaníðsdómi

Kjartan Kjartansson skrifar
Pell kardináli misnotaði kórdrengi í Melbourne á 10. áratugnum.
Pell kardináli misnotaði kórdrengi í Melbourne á 10. áratugnum. Vísir/EPA
George Pell, ástralskur kardináli, ætlar að áfrýja sex ára fangelsisdómi sem hann hlaut fyrir að misnota tvo kórdrengi kynferðislega. Dómarar gætu ákveðið að fella dóminn úr gildi eða skipa fyrir um ný réttarhöld yfir Pell.

Dómurinn yfir Pell, sem er 77 ára gamall, féll í mars. Hann var fundinn sekur í fimm ákæruliðum að hafa misnotað tvo þrettán ára gamla drengi í dómkirkju heilags Patreks þegar hann var erkibiskup í Melbourne á 10. áratugnum.

Reuters-fréttastofan segir að þrjár forsendur séu fyrir áfrýjun Pell. Lögmenn hans telja að kviðdómur hafi komist að ósanngjarnri niðurstöðu miðað við sönnunargögn í málinu, dómari hafi gert mistök með því að leyfa verjendunum ekki að sýna myndband í lokamálsvarnarræðu og að grundvallargalli hafi verið á réttarhöldunum því Pell hafi ekki lýst afstöðu til ákærunnar fyrir kviðdómi.

Pell var einn nánasti ráðgjafi Frans páfa og var handvalinn af honum til að stýra fjármálum Páfagarðs árið 2014. Hann er hæst setti yfirmaður kaþólsku kirkjunnar í heiminum sem hefur verið sakfelldur fyrir að misnota börn.


Tengdar fréttir

Fréttamenn gætu verið fangelsaðir eftir dóm yfir kardinála

Ástralskir fjölmiðlar máttu ekki fjalla um dóminn yfir Pell kardinála þegar hann féll í desember vegna lögbanns sem átti að tryggja sanngirni áframhaldandi réttarhalda yfir honum. Þeir sem sögðu frá því í einhverri mynd gætu átt von á ákæru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×