Allir sem taka ökupróf á Íslandi læra að þegar ekið er út úr hringtorgi þá eru það þeir sem eru í innri hring sem eiga réttinn, - þeir sem eru í ytri hring þurfa að víkja.
Þessari reglu vill Ólafur Kr. Guðmundsson að Alþingi breyti núna við endurskoðun umferðarlaga enda sé hún í mótsögn við aðra grundvallarreglu í umferðinni, svokallaða hægrireglu.

„Þetta er öfugt miðað við það sem aðrar þjóðir gera. Þannig að nú er tækifærið, að hafa þetta eins og það er í öðrum löndum og vera ekki að búa til nýtt vandamál á Íslandi. Sem verður út af aukningu ferðamanna, sem eru ekki vanir þessum aðstæðum,“ segir Ólafur.
Það gerði kannski ekki mikið til að Íslendingar væru með sína eigin reglu á Íslandi meðan þeir voru nánast einir um að aka um íslenska vegi. En það er aldeilis orðið breytt.
„Það er mjög algengt að það verði eignatjón í hringtorgum á Íslandi, og þá mjög oft erlendir ferðamenn,“ segir Ólafur og bendir á hringtorgið á Vesturlandsvegi við Bauhaus.
Þar hafi orðið yfir sjötíu árekstrar á einungis fimm árum, megnið af þeim eignatjón þegar menn séu að beygja út úr hringtorginu. Þá verði þessi misskilningur, milli útlendinga og Íslendinga. Þá myndi samræming auðvelda Íslendingum að aka erlendis.

Þótt sumir vilji meina að íslenska reglan sé skynsamlegri telur Ólafur ólíklegt að Íslendingum takist að sannfæra aðrar þjóðir um að taka hana upp.
„Ég held að það sé miklu einfaldara að kenna 300 þúsund manns nýja reglu heldur en að ætla að umbreyta öllum heiminum. Ég myndi byrja á þessum 300 þúsund,“ segir Ólafur.
Hér má sjá viðtalið við Ólaf: