Lífið

Grammy-verðlaunahafi fannst látinn í stigagangi

Sylvía Hall skrifar
Leathers spilaði með söngkonunni Cecile McLorin Salvant og unnu plötur hennar Grammy-verðlaun árin 2015 og 2017.
Leathers spilaði með söngkonunni Cecile McLorin Salvant og unnu plötur hennar Grammy-verðlaun árin 2015 og 2017. Vísir/Getty
Trommarinn Lawrence Leathers fannst látinn í stigagangi í Bronx hverfinu í New York á sunnudag en talið er að hann hafi verið myrtur af sambýlisfólki sínu. Kærasta Leathers og meintur ástmaður hennar hafa verið handtekinn í tengslum við andlátið.

Fólkið sem er í haldi lögreglu eru þau Lisa Harris, kærasta Leathers, og Sterling Aguilar sambýlismaður þeirra. Talið er að komið hafi til átaka á milli þeirra þriggja eftir samkvæmi í íbúð þeirra sem endaði með því að Aguilar þrengdi að hálsi Leathers með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund. Var takið svo fast að bein brotnuðu í hálsi trommarans.

Kærasta hans hélt honum niðri á meðan átökunum stóð og bera áverkar á höfði hans þess merki að hún hafi sparkað í höfuð hans. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði Harris að hann hafi ráðist á hana og hún hafi setist á hann í sjálfvörn.

Furðulegur ástarþríhyrningur 

Lögreglan í Bronx segir ástæðu átakanna hafa verið afbrýðissemi og að þremenningarnir hafi átt í einhverskonar ástarþríhyrning. Leathers og Harris höfðu búið saman í þónokkur ár. 

Það var leigusali Leathers sem kom að honum í stigaganginum á sunnudag. Hún hélt í fyrstu að hann hafi tekið of stóran skammt enda vissi hún að það hafi verið samkvæmi kvöldið áður.   

Hún segist ekki hafa vitað að þau ættu í ástarsambandi fyrr en Harris sagði lögreglu að hann væri kærasti sinn. Upplýsingarnar komu henni verulega á óvart. 

„Ég sá aldrei neina rómantík á milli þeirra. Hún laug að mér. Hún sagði við mig að hann væri frændi hennar,“ sagði leigusalinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.