Erlent

Ríkisstjórn Orban herðir tökin á vísindarannsóknum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá mótmælum við Vísindaakademíu Ungverjalands í Búdapest á sunnudag.
Frá mótmælum við Vísindaakademíu Ungverjalands í Búdapest á sunnudag. Vísir/EPA
Stjórn Vísindaakademíu Ungverjalands færist að miklu leyti í hendur stjórnvalda verði frumvarp sem ríkisstjórn Viktors Orban, forsætisráðherra, að lögum. Orban hefur hert tök ríkisstjórnarinnar á opinberum lífi, þar á meðal dómstólum, fjölmiðlum og háskólum, í valdatíð sinni.

Vísindamenn hafa mótmælt fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar. Akademían sagði sjálf í síðustu viku að ríkisstjórnin vildi ná „fullri pólitískri stjórn“ á mikilvægum rannsóknum. Þúsundir mótmæltu frumvarpinu á götum Búdapest á sunnudag.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar yrði nýtt ellefu manna ráð sett yfir vísindaakademíuna undir forystu nýsköpunar- og tæknimálaráðherrans. Ráðið ákvæði hvaða rannsóknarefni fengju fjárveitingu og fylgdist með notkun fjármuna. Forsætisráðherrann sæi um að skipa fulltrúa í ráðið að tillögu ráðherrans.

Ríkisstjórn Orban hefur sagt að þau verkefni sem stuðli beint að samkeppnishæfni ungversks efnahagslífs yrðu sett í forgang. Einstakar rannsóknarstofnanir eiga svo að heyra undir þrettán manna stjórn með sex fulltrúum ríkisstjórnarinnar og sex frá fræðasamfélaginu. Forsætisráðherrann myndi skipa oddvita stjórnarinnar.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segist ætla að fylgjast grannt með þróun mála í Ungverjalandi og hvatti ríkisstjórn Orban til þess að taka engar ákvarðanir sem takmarki vísindalegt og akademískt frelsi.

Orban, sem segist sjálfur stefna að „ófrjálslyndu lýðræði“ í Ungverjalandi, hefur áður hlutast til um hvað ungverskir háskólar eigi og eigi ekki að kenna. Þannig vildi hann banna kennslu á kynjafræði.

Þá kom ríkisstjórn hans því til leiðar að loka þurfti Miðevrópuháskólanum í Búdapest í fyrra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×