ASÍ hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttar Fréttablaðsins í dag, sem einnig birtist á Vísi, þar sem fjallað var um gagnrýni framkvæmdastjóra Bónuss á framkvæmd verðlagskönnunar verðlagseftirlits ASÍ. Áréttar sambandið að lægsta vöruverðið samkvæmt könnuninni sé oftast í Bónus.
Framkvæmdastjórinn, Guðmundur Marteinsson, gagnrýndi þar verðkörfuna sem birtist í tilkynningu á vef ASÍ um verðlagskönnunina og sagði hana handvalda af ASÍ til þess að fá þá niðurstöðu að karfan væri ekki ódýrust í Bónus. Karfan sem birtist þar er ódýrust í Krónunni og næstódýrust í Fjarðarkaupum.
„Þau segjast velja einhverja vöru af handahófi, en ef þú tekur vörurnar sem fást á báðum stöðum þá sérðu bara hvernig þetta er í raun og veru. Þetta er bara ákvörðun hjá þeim. Ég gef ekki mikið fyrir þessa verðkönnun,“ sagði Guðmundur í samtali við Fréttablaðið.
ASÍ segir fréttaflutninginn rangan. Það sé ekki rétt að Krónan sé með lægsta verðið í könnuninni heldur hafi það staðið skýrum stöfum í tilkynningu könnunarinnar að hæsta verðið væri oftast í 10-11 og það lægsta í Bónus.
Að sögn ASÍ kann það hins vegar að hafa valdið misskilningi að í fréttatilkynningunni væri fyrrnefnd tafla birt með nokkrum verðdæmum. Þar væri Krónan örlítið lægri en Bónus.
„Í verðkönnuninni allri voru hins vegar bornar saman 106 vörutegundir og þar var Bónus oftast með lægsta verðið eins og áður segir,“ segir í tilkynningu ASÍ.
