Innlent

Flugumferðarstjórar boða þjálfunarbann

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Jói K.
Félag íslenskra flugumferðarstjóra hefur boðað vinnustöðvun í formi þjálfunarbanns allra félagsmanna sem starfa hjá Isavia Ohf. frá og með hádegi 14. júní næstkomandi, eða þar til nýr kjarasamningur verður undirritaður. Mun þjálfunarbannið taka til allra tíma sólarhringsins.

Kári Örn Óskarsson er formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra en hann segir í samtali við Vísi að bannið muni ekki hafa bein áhrif á flug til og frá landinu. Bannið sé boðað til að setja pressu á Isavia um að mæta kröfum félagsmanna sem hafa verið samningslausir frá áramótum.

Ef bannið tekur gildi mun það seinka því að Isavia geti tekið nýja starfsmenn inn þegar vöntun er á slíkum.

Kári segir félagið eiga vinnufund með Samtök atvinnulífsins og Isavia á miðvikudaginn og þá hefur ríkissáttasemjari boðað til fundar næsta fimmtudag.

Helsta mál flugumferðarstjóra er vinnutími vaktavinnufólks en þar stendur hnífurinn í kúnni að sögn Kára.

Flugumferðarstjórar hafa verið samningslausir frá áramótum en kjaraviðræðum þeirra við Isavia og Samtök atvinnulífsins var vísað til ríkissáttasemjara í apríl síðastliðnum. Kári segir það hafa liðkað fyrir að fá reglulega samningafundi við vinnuveitendurna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×