Erlent

Farage ataður mjólkurhristingi í Newcastle

Kjartan Kjartansson skrifar
Farage var ekki hlátur í huga eftir að hann varð fyrir mjólkurhristingsfyrirsáti í Newcastle. Myndin er úr safni.
Farage var ekki hlátur í huga eftir að hann varð fyrir mjólkurhristingsfyrirsáti í Newcastle. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn eftir að hann hellti mjólkurhristingi yfir Nigel Farage, formanni Brexit-flokksins, í miðborg Newcastle á Englandi í dag. Farage var staddur í borginni vegna kosningabaráttu fyrir Evrópuþingskosningar.

Lögreglan í Northumbria segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn, grunaður um líkamsárás. Þegar maðurinn var dreginn í burtu og handjárnaður sagði hann „Það er réttur að mótmæla fólki eins og honum,“ að því er segir í frétt The Guardian.

Farage, sem hefur verið áberandi í umræðunni fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu undanfarin ár, var sagður foxillur eftir aðfarirnar og kennt öryggisteymi sínu um hvernig fór. Á Twitter fordæmdi hann stuðningsmenn þess að Bretar verði um kyrrt í ESB. Þeir séu orðnir svo róttækir að ekki sé lengur hægt að há hefðbundna kosningabaráttu.

Þetta er ekki fyrsta mjólkurhristingsatlagan sem hefur verið gerð á stjórnmálamenn af hægri jaðrinum og hægriöfgamenn undanfarnar vikur. Þannig var mjólkurhristingi kastað yfir Tommy Robinson, áberandi hægriöfgamanna á Bretlandi, og Carl Benjamin, frambjóðanda Breska sjálfstæðisflokksins (Ukip). Það var í fjórða skiptið sem Benjamin varð fyrir slíkri árás í kosningabaráttunni en hann er sjálfur til rannsóknar vegna ummæla sem hann lét falla um að nauðgun á þingkonu Verkamannaflokksins.


Tengdar fréttir

Blússandi sigling á Farage

Allt útlit er fyrir að hinn háværi íhaldsmaður og Brexit-sinni Nigel Farage muni standa uppi sem sigurvegari Evrópuþings­kosninganna sem fara fram í Bretlandi þann 23. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×