Trommari Hatara, Einar Stefánsson, birti skjáskot af montinu, sem flugfreyja umrædds flugfélags segir þó að sé á misskilningi byggt.
Sjá einnig: Hatarar í verstu sætunum í fluginu frá Tel Aviv
Felix Bergsson, fararstjóri íslenska hópsins, segist í samtali við Morgunblaðið í dag vera ósáttur við hegðun flugfélagsstarfsmannanna. Svo virðist sem það hafi verið meðvituð ákvörðun þeirra að stía í sundur Hatara-meðlimum í flugvélinni og sjá til þess að þau fengju öll léleg sæti.
„Auk þess sem við vildum ræða við okkar menn hjá Ríkisútvarpinu um hvað fólk vildi að við gerðum í þessu, en mér finnst þetta ekki gott mál,“ segir Felix við Morgunblaðið.
Grín tekið úr samhengi
Vísir sendi í morgun fyrirspurn á EL AL, vegna málsins en ekkert svar hefur enn borist.Á vef ísraelsku sjónvarpsstöðvarinnar Reshet 13 er hins vegar haft eftir flugfreyjunni sem birti montið að fyrrnefnd skjáskot, sem Einar deildi, séu tekin úr samhengi.
Þetta hafi einfaldlega verið góðlátlegt grín sem var birt á lokuðu Facebook-svæði fyrir starfsmenn flugfélagsins. Þar að auki hafi Hatarafólki ekki verið stíað í sundur, þvert á móti hafi þau setið í röð.