Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir það koma til greina að rifta nýundirrituðum kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins, SA. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Efling krafðist í dag fundar hjá ríkissáttasemjara með SA vegna „vanefnda“ á samningnum.
Í yfirlýsingu Eflingar sem send var út í dag segir að málið komi til vegna hópuppsagnar hótelstjórans Árna Vals Sólonssonar á launakjörum starfsfólks síns umsvifalaust eftir samþykkt kjarasamninganna.
SA hafi sent bréf til Eflingar þar sem þvertekið var fyrir að um væri að ræða undanbrögð vegna launahækkana í kjarasamningum. Í yfirlýsingu var haft eftir Viðari Þorsteinssyni framkvæmdastjóra Eflingar að nú sé traust milli samningsaðila í húfi og að málið snúist um efndir á samningum.
Sólveig Anna sagði málið mjög alvarlegt í kvöldfréttum RÚV. Þess verði krafist að SA láti félagsmenn sína vita af því að framkoma á borð við þá sem hótelstjórinn hafi sýnt sé ólíðandi, og tryggi þannig að verkalýðsfélögin geti treyst því að orð standi. Að öðrum kosti sé ekkert annað í stöðunni en að rifta samningum.

