Körfubolti

Kom stelpunum upp í Dominos og nú er komið að strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Rodriguez talar við Skallagrímsstelpurnar í bikarúrslitaleiknum 2017.
Manuel Rodriguez talar við Skallagrímsstelpurnar í bikarúrslitaleiknum 2017. vísir/eyþór
Manuel A. Rodríguez verður næsti þjálfari karlaliðs Skallagríms í körfuboltanum en liðið spilar í 1. deildinni næsta vetur eftir fall úr Domino´s deildinni í vor.

Skallagrímur segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni í dag. Manuel mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka næsta vetur líkt og hann gerði þegar hann var síðast hjá félaginu.

Spánverjinn þekkir mjög vel til hjá Skallagrími því hann þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Skallagrími frá 2015 til 2017.

Undir stjórn Manuel A. Rodríguez vann Skallagrímur sér sæti í efstu deild kvenna í fyrsta sinn í marga áratugi og þá varð hann fyrstur þjálfara til að fara með kvennalið Skallagríms bæði í úrslitakeppni og í bikarúrsliti vorið 2017.

„Ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að þjálfa karlalið Skallagríms næsta tímabil," segir Manuel. „Það er mikil hamingja yfir því að snúa aftur í Borgarnes en ég á á mjög góðar minningar þaðan þau tvö tímabil sem ég þjálfaði kvennaliðið,“ er haft eftir Manuel A. Rodríguez í fréttatilkynningu Skallagríms.

Manuel kveðst tilbúinn að leggja hart að sér til að ná árangri. „Það verður mikil barátta næsta tímabil og á brattan að sækja. Við munum hins vegar undirbúa okkur vel og af krafti og trúmennsku og ég mun leitast við að gera liðið erfitt viðureignar fyrir alla andstæðinga. Ég er reiðubúinn til að vinna sleitulaust að því að koma því á þann stall sem það á skilið. Þetta getur orðið löng og ströng vegferð, en við munum undirbúa okkur vel því ég tel að árangur náist með samstilltu átaki frá degi dag til dags á tímabilinu fram undan.“

Skallagrímsliðið er þegar búið að missa tvo lykilmenn en Björgvin Hafþór Ríkharðsson samdi við Grindavík og Bjarni Guðmann Jónsson er að fara út í nám.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×