Hann segir að belgurinn sem var fremst á hræinu hafi verið tunga dýrsins sem tútnaði út, sennilega vegna gerjunarinnar innan í dýrinu. Loftið lendi þannig inni í tungunni.
Belgurinn sprakk ekki eins og einhverjir höfðu ef til vill búist við heldur lak loftið úr henni þar sem líklegast hefur komið smá gat á belginn.
Hafrannsóknarstofnun tekur sýni úr hræinu áður en tekin er ákvörðun um hvort og hvernig því verði fargað en Umhverfisstofnun kemur að þeim þætti málsins samkvæmt verklagsreglum MAST um hvalreka.
Sverrir segir að hann hafi komist nægilega vel að hræinu í dag þar sem það var umflotið sjó. Hann muni hins vegar freista þess að ná sýnum klukkan 18 í dag þegar það á að vera fjara.
Taka ýmis sýni úr hræinu
Aðspurður hvenær hrefnan dó segist hann telja að það sé ekki mjög langt síðan. Ástandið á hræinu virðist benda til þess að það hafi kannski verið einhvern tímann í síðustu viku.„Það hefur verið frekar svalt og sjórinn kaldur þannig að þetta geymist ágætlega í sjónum,“ segir Sverrir
Hann segir ekki vitað enn þá hvað dýrið er gamalt en segir þetta meðalstórt, fullorðið kvendýr.
Sverrir segir það fara dálítið eftir tegundum hvaða sýni séu tekin úr hræjum sem reka á land.
„Við eigum töluvert safn af hrefnusýnum en við reynum að fá erfðasýni úr öllu, kjöt- og spiksýni upp á orku og mengun og kynfæri fyrir kynþroska og afkomu,“ segir Sverrir.