Körfubolti

Tímabilið ekki búið hjá Ægi - farinn að spila í Argentínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson.
Ægir Þór Steinarsson. Vísir/Bára
Ægir Þór Steinarsson mætti ekki á lokahóf KKÍ í dag þar sem hann var kosinn besti varnarmaðurinn og var einnig valinn í úrvalsliðið. Hann var samt löglega afsakaður enda kominn í nýtt lið í Argentínu.

Ægir er búinn að semja við argentínska úrvalsliðið Regatas Corrientes sem kemur frá borginni Corrientes í Norðurhluta Argentínu við landamærin við Paragvæ.





Regatas Corrientes hefur unnið 21 af 37 leikjum sínum á tímabilinu og er eins og er í sjöunda sæti deildarinnar en átta efstu liðin tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

Ægir fyllir í skarð DeAngelo Stephens-Bell sem hefur spilað sinn síðasta leik með félaginu. Stephens-Bell stóð ekki undir væntingum og spilar sem dæmi aðeins í fimm mínútur í síðasta leiknum sínum með liðinu.

Ægi er ætlað að hjálpa liðinu í úrslitakeppninni sem fer fram undan en liðið á eftir aðeins einn leik í deildarkeppninni.

Ægir Þór Steinarsson átti mjög flott tímabil með Stjörnuliðinu en hann var með 12,5 stig og 7,5 stoðsendingar í leik á öllu tímabilinu en hafði hækkað stigaskor sitt upp í 14,8 stig í leik í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×