Erlent

Sænskur fót­bolta­maður rændur og haldið föngnum á „Tinder-stefnu­móti“

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað í lok síðasta mánaðar í miðhluta Svíþjóðar. Myndin tengist málinu ekki beint.
Atvikið átti sér stað í lok síðasta mánaðar í miðhluta Svíþjóðar. Myndin tengist málinu ekki beint. Getty
Sænskur fótboltamaður var rændur og honum haldið föngnum í apríl þegar hann mætti á það sem hann hélt vera stefnumót með konu sem hann hafði kynnst á stefnumótaforritinu Tinder.

Sænskir fjölmiðlar, meðal annars Aftonbladet og Expressen, segja að hópur fimm manna hafi mætt fótboltamanninum, sem er ekki nafngreindur en sagður „þekktur“, þegar hann mætti á staðinn þar sem hann hugðist hitta „konuna“.

Tóku mennirnir veski fótboltamannsins og síma, ógnuðu honum með hníf og létu hann tæma bankareikninginn, alls rúmlega 109 þúsund sænskar krónur, sem samsvarar um 1,4 milljón íslenskra króna.

Atvikið átti sér stað í lok síðasta mánaðar í miðhluta Svíþjóðar. Í frétt Aftonbladet segir að manninum hafi verið hótað lífláti og hann verið barinn. Árásarmennirnir héldu fótboltamanninum föngnum í skógi í um tvær klukkustundir, milli 21:30 og 23:30 umrætt kvöld. Þá hafi mennirnir einnig tekið upp myndskeið og neytt manninn til að þylja upp einhverjar yfirlýsingar.

Lögregla staðfestir í samtali við Aftonbladet að fleiri „Tinder-rán“ séu til rannsóknar í umdæminu. Sex manns hafi verið handteknir í vikunni vegna gruns um aðild að einhverjum slíkum, en tveimur var síðar sleppt. Fleiri er leitað.

Fótboltamaðurinn á ekki að hafa særst alvarlega í árásinni, en hann hefur ekki viljað tjá sig sérstaklega um málið við sænska fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×