Innlent

Vilja að nefndin skoði skipun Skúla Þórs

Ari Brynjólfsson skrifar
Nefnd um eftirlit með lögreglu var sett á laggirnar 2017.
Nefnd um eftirlit með lögreglu var sett á laggirnar 2017. Vísir/vilhelm
Afstaða, félag fanga, hyggst senda stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi og óska eftir því að nefndin taki til skoðunar skipun formanns nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði í desember Skúla Þór Gunnsteinsson, formann nefndarinnar.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að innanríkisráðuneytið sem þá hét hefur ítrekað þurft að biðjast afsökunar á háttsemi Skúla sem var starfsmaður ráðuneytisins. Hann var fluttur til í starfi vegna kvartana og starfar nú í sveitarstjórnaráðuneytinu. Kvartanir gegn Skúla vörðuðu óviðeigandi athugasemdir og efni tölvupósta úr netfangi hans í ráðuneytinu. Annars vegar um félag fanga og starfsmenn umboðsmanns Alþingis og hins vegar í pósti til Barnaverndarstofu um konu sem var að slíta samvistum við vin hans.

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, var ekki búin að kynna sér málið til hlítar í gær en útilokaði ekki að nefndin tæki málið fyrir. „Nefndin getur tekið öll mál til skoðunar sem varða athafnir framkvæmdarvaldsins. Hún hefur mjög ríka eftirlitsskyldu,“ segir Helga Vala.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×