Viðskipti innlent

Þriðjungur atvinnulausra erlendir ríkisborgarar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Atvinnuleysið í apríl var mest á Suðurnesjum.
Atvinnuleysið í apríl var mest á Suðurnesjum. fbl/stefán
Að jafnaði voru 6.803 einstaklingar á atvinnuleysisskrá í apríl og fjölgaði þeim um 841 frá marsmánuði. Þeim hefur hins vegar fjölgað um 2612 frá sama mánuði á síðasta ári. Skráð atvinnuleysi í síðasta mánuði nam því 3,7 prósentum en í mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar gætir áhrifa gjaldþrots WOW air verulega í atvinnuleysistölunum.

Atvinnuleysishlutfallið er þó næstum tvöfalt hærra meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi. Alls voru 2.499 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok apríl eða um 34 prósent allra atvinnulausra. Þessi fjöldi samsvarar um 7,1 prósent atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara. 

Vinnumálastofnun áætlar að atvinnuleysi muni minnka í maí, ekki síst vegna áhrifa árstíðarsveiflu og verði á bilinu 3,4 til 3,6 prósent.

Í greiningu stofnunarinnar kemur jafnframt fram að atvinnuleysið hafi verið mest á Suðurnesjum, eða 6,4 prósent, og jókst það um 1 prósent frá fyrri mánuði. Á höfuðborgarsvæðinu var atvinnuleysið 3,9 prósent og jókst um 0,6 prósentustig.

Þá fjölgaði atvinnulausum í öllum atvinnugreinum á milli aprílmánaðanna 2018 og 2019. Mest var fjölgunin í ýmsri sérhæfðri þjónustu og er þar einkum um að ræða sérhæfða ferðatengda þjónustustarfsemi, og svo í flutningastarfsemi, sem endurspeglar gjaldþrot WOW og fækkun tengdra starfa. Minnsta aukning atvinnulausra var í störfum tengdum landbúnaði og fiskveiðum sem og í opinberri þjónustu.

Mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar um vinnumarkaðinn má nálgast hér.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×