Sport

Fékk að vita að hann væri kominn í úrslitakeppnina í miðju viðtali

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daryl Gurney, til vinstri, komst í úrslitakeppnina eftir sigur í lokaumferðinni í gær.
Daryl Gurney, til vinstri, komst í úrslitakeppnina eftir sigur í lokaumferðinni í gær. Getty/Alex Burstow
Síðustu sætin í úrslitakeppninni í úrvalsdeildinni í pílu fór til Englands og Norður-Írlands en deildarkeppninni lauk í gær. Úrslitakeppnin tekur síðan við í næstu viku.

Englendingurinn James Wade tryggði sér síðasta sætið með því að vinna landa sinn Rob Cross sem sat í efsta sætinu fyrir sextándu og síðustu umferðina.

James Wade og Norður Írinn Daryl Gurney komust í úrslitakeppnina í gær en áður höfðu Michael Van Gerwen og Rob Cross tryggt sig inn í þessa fjögurra manna úrslitakeppnin þar sem barist verður um sigur í úrvalsdeildinni í ár.





„Rob hefur verið besti spilarinn í úrvalsdeildinni á þessu tímabili en í kvöld fannst mér taugarnar vera svolítið að stríða honum,“ sagði James Wade eftir sigurinn Rob Cross. Þeir munu mætast aftur í undanúrslitum úrslitakeppninnar.

„Þessi úrslit í kvöld skipta engu máli í úrslitakeppninni en ef eitthvað þá ættu þau að gefa Rob meira bensín því hann missti af 25 þúsund pundum út af þessu tapi,“ sagði Wade.

Hollendingurinn Michael Van Gerwen nýtti sér þetta tap hjá Rob Cross í gær og tryggði sér í gær efsta sætið í deildarkeppninni sjöunda árið í röð.

„Þetta er mikið afrek fyrir mig en ég veit að ég get betur. Það er pláss fyrir framfarir því ég brást sjálfum mér í nokkrum leikjum,“ sagði Michael Van Gerwen.

„Nú ætla ég að einbeita mér að næstu viku því mikilvægast er að vinna leikina í úrslitakeppninni í London,“ sagði Van Gerwen.  

Michael Van Gerwen vann 8-5 sigur á hinum austurríska Mensur Suljović og eyddi um leið öllum vonum Mensur Suljović um að vera með í úrslitakeppninni.





Hinn velski Gerwyn Price var næstur því að komast í úrslitakeppnina en það dugði honum ekki að vinna sannfærandi 8-3 sigur á Skotanum Peter Wright.

„Ég er mjög ánægður. Ég vissi að ég þyrfti að vinna í kvöld og hef líklega sjaldan verið einbeittari. Þetta er ein mín besta frammistaða,“ sagði Norður Írinn Daryl Gurney sem tryggði sér sæti í úrslitakeppninni með 8-3 sigri á Michael Smith.

„Nú er ég kominn inn í úrslitakeppnina og geri mitt besta til að vinna titilinn,“ sagði Gurney.  Hér fyrir ofan má sjá þegar hann fékk fréttirnar í miðju viðtali.







Úrslitin í sextándu umferðinni í Leeds í gær:

Gerwyn Price 8-3 Peter Wright

Daryl Gurney 8-3 Michael Smith

Michael van Gerwen 8-5 Mensur Suljovic

James Wade 8-6 Rob Cross

Lokastaðan í deildarkeppninni:

1. Michael van Gerwen 23 stig

2. Rob Cross 22

3. James Wade 20

4. Daryl Gurney 19

5. Gerwyn Price 18

6. Mensur Suljovic 17

7. Michael Smith 10

8. Peter Wright 9

9. Raymond van Barneveld 4

Undanúrslit úrslitakeppninnar - Fimmtudagurinn 23. maí

Fer fram í O2-höllinni í London

Michael van Gerwen - Daryl Gurney

Rob Cross - James Wade












Fleiri fréttir

Sjá meira


×