Erlent

Assange vill ekki vera framseldur til Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í sendiráði Ekvador í London í síðasta mánuði.
Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í sendiráði Ekvador í London í síðasta mánuði. AP/Matt Dunham

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, segist ekki vilja vera framseldur til Bandaríkjanna. Réttarhöld standa nú yfir í London vegna framsalsbeiðni Bandaríkjanna sem vilja koma höndum yfir Assange vegna birtinga Wikileaks á leynilegum upplýsingum sem samtökin fengu frá Chelsea Manning árið 2010. Hann var handtekinn í sendiráði Ekvador í London þann ellefta maí eftir að ríkisstjórn landsins felldi niður hæli hans.



Þá hafði Assange haldið til í sendiráðinu frá því í júní 2012.



Hann var dæmdur í 50 vikna fangelsi í gær fyrir að mæta ekki fyrir dómara eins og honum hafði verið gert að gera þegar hann flúði í sendiráðið. Þá stóðu yfir réttarhöld vegna framsalsbeiðni yfirvalda í Svíþjóð sem sóttust eftir Assange sem var grunaður um kynferðisbrot þar í landi. Hann óttaðist að vera framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna.



Svíar ákváðu á endanum að hætta að eltast við Assange þar sem saksóknarar töldu einkar ólíklegt að þeir kæmu höndum yfir hann. Sú ákvörðun var ekki til marks um að Assange hafi verið hreinsaður af sök. Tvö brotanna sem hann var sakaður um eru fyrnd en nauðgunarákæra er það ekki.



Sænskir saksóknarar lýstu því yfir í síðasta mánuði að verið væri að skoða hvort opna ætti málið að nýju. Hópur breskra þingmanna hefur lýst því yfir að réttast væri að setja framsal Assange til Svíþjóðar í forgang, muni þeir fara fram á framsal.



Assange var þó enn eftirlýstur fyrir að hafa ekki mætt fyrir dómara.



Bandaríkin hafa nú ákært Assange fyrir að hafa hjálpað Manning að reyna að brjóta sér leið inn í tölvu herafla Bandaríkjanna og byggir framsalsbeiðni þeirra á því.



Við réttarhöldin í dag var Assange spurður hvort hann samþykkti að verða framseldur til Bandaríkjanna. Assange er í fangelsi og svaraði í gegnum myndbandsútendingu og sagðist mótfallinn framsali.



Málaferlunum var frestað til 30. maí en málaflutningur mun ekki hefjast fyrr en þann 12. júní.

 




Tengdar fréttir

Svipting hælis Assange hættulegt fordæmi

Stofnandi WikiLeaks handtekinn í ekvadorska sendiráðinu. Bandaríkin fara fram á framsal og vilja rétta yfir honum vegna samráðs við Chelsea Manning.

Assange dæmdur í 50 vikna fangelsi

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, var dæmdur í 50 vikna langt fangelsi í Bretlandi í dag fyrir að brjóta gegn skilyrðum þess er hann var látinn laus úr haldi lögreglu í Bretlandi árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×