Ráðamenn Icelandair ræddu afkomuna á fundi með fjárfestum á Loftleiðahótelinu í morgun en félagið tapaði 6,7 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins, eða sem nemur 74 milljónum króna á dag. Bogi Nils Bogason forstjóri segir að fyrsti fjórðungur ársins sé yfirleitt í tapi hjá Icelandair og mörgum öðrum flugfélögum en aðrir fjórðungar séu sterkari.
„Uppgjörið var í takt við væntingar. En við vorum ekki ánægðir með uppgjörið. Það er ekki ásættanlegt og við viljum og þurfum að gera miklu betur og þar verðum við að horfa á alla kostnaðarliði,“ sagði Bogi og var sérstaklega spurður um launakostnað.
„Eins og uppgjörið ber með sér þá er launakostnaður í rauninni hár hjá félaginu og þar verðum við að vinna í hlutunum og vinna með okkar starfsfólki.“
-Þýðir það að þið munið hreinlega fara fram á launalækkanir í kjarasamningum?
„Ég held að það sé ekki málið. Tækifærin sem við horfum í rauninni á er að finna tækifæri til hagræðingar sem við getum skipt á milli starfsmanna og félagsins. Það er svona það sem við erum að vinna að,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.