Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hvetur stjórnvöld í Evrópu til þess að tryggja að viðkvæmir hópar fái bólusetningar við mislingum. Tölur stofnunarinnar sýna að fleiri en 34.000 manns smituðust af mislingum í Evrópu fyrstu tvo mánuði ársins, flestir þeirra í Úkraínu.
Af þeim tugum þúsunda sem smituðust í 42 löndum sem WHO skilgreinir sem Evrópusvæðið voru 25.000 í Úkraínu. Af þeim sem smituðust létust þrettán af völdu mislinga í Úkraínu, Rúmeníu og Albaníu, að sögn Reuters-fréttastofunnar. WHO varar við því að faraldurinn geti haldið áfram að breiða úr sér.
„Nýta ætti hvert tækifæri til að bólusetja börn, ungmenni og fullorðna sem eru næmir fyrir smiti,“ segir í yfirlýsingu WHO.
Mislingafaraldrar hafa geisað víða um heim að undanförnu, þar á meðal í Bandaríkjunum, á Filippseyjum og í Taílandi. Ástæðan er meðal annars hópar óbólusettra einstaklinga.
Í skýrslu barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í síðasta mánuði var áætlað að fleiri en tuttugu milljónir barna hefðu misst af bólusetningum við mislingum á hverju ári undanfarin átta ár. Það gæti lagt grundvöllinn að skæðum faröldrum í framtíðinni.
