Erlent

Lögðu hald á stærðarinnar flutningaskip frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða næst stærsta flutningaskip Norður-Kóreu og mun það hafa verið notað til að flytja kol til sölu.
Um er að ræða næst stærsta flutningaskip Norður-Kóreu og mun það hafa verið notað til að flytja kol til sölu. Vísir/AP
Yfirvöld Bandaríkjanna lögðu í dag hald á flutningaskipið „Wise Honest“ frá Norður-Kóreu sem þeir segja að hafi verið notað til að brjóta gegn viðskiptaþvingunum og refsiaðgerðum gegn einræðisríkinu. Þetta er í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra aðgerða.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að verið sé að flytja skipið til Samóa. Ríkisstjórn Norður-Kóreu getu mótmælt haldlagningunni fyrir dómi en beri Bandaríkin sigur úr bítum munu þeir geta selt skipið.

Krafa Bandaríkjanna byggir á því að greiðslur vegna reksturs skipsins fóru í gegnum bandarískar fjármálastofnanir og í trássi við lög Bandaríkjanna.

Um er að ræða næst stærsta flutningaskip Norður-Kóreu og mun það hafa verið notað til að flytja kol til sölu. Samkvæmt AP fréttaveitunni er talið að Norður-Kórea hafi að miklu leyti fjármagna kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlun ríkisins með því að selja kol.



Skipið var í raun í eigu hers Norður-Kóreu og var einnig notað til að flytja iðnaðartækni til einræðisríkisins.

Tilkynningin um haldlagninguna barst einungis klukkustundum eftir að Norður-Kóreumenn skutu tveimur eldflaugum á loft, í annað sinn á fimm dögum, og þykir það til marks um að viðræður Norður-Kóreu og Bandaríkjanna vegna kjarnorkuvopnaáætlunar einræðisríkisins gangi ekki vel. Þó starfsmenn ráðuneytisins hafi sagt að haldlagningin tengist ekki viðræðunum.

Yfirvöld Indónesíu stöðvuðu skipið í apríl í fyrra vegna grunns um að það væri notað til að brjóta gegn refsiaðgerðum Sameinuðu þjóðanna en áhöfn þess var þó leyft að flytja farm þess yfir í annað skip sem var siglt til Malasíu, samkvæmt Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×