Viðskipti innlent

Ingi Jóhann og Anna í stjórn Loftleiða Cabo Verde

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs
Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs
Systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn, stærstu eigendur útgerðarfélagsins Gjögurs, hafa tekið sæti í stjórn félags sem keypti fyrr á árinu 51 prósents hlut í ríkisflugfélaginu Cabo Verde Airlines á Grænhöfðaeyjum.

Um leið hafa þeir Baldvin Þorsteinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Samherja og stjórnarformaður Eimskips, og Steingrímur Halldór Pétursson, fjárfestir og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Olís, gengið úr stjórn félagsins sem ber heitið Loftleiðir Cabo Verde.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair Group, leiðir fjárfestahópinn sem tekur þátt, ásamt Loftleiðum Icelandic, dótturfélagi flugfélagsins, í kaupunum. Björgólfur þekkir vel til systkinanna en hann situr í stjórn Gjögurs með Önnu og þá eru þeir Ingi Jóhann jafnframt stjórnarmenn í Sjóvá.

Stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum samþykktu í lok febrúar kauptilboð Loftleiða Cabo Verde sem hljóðaði upp á jafnvirði 175 milljóna króna en til viðbótar hyggst félagið leggja ríkis­flugfélaginu til um 730 milljónir.

Loftleiðir Icelandic fara með 70 prósenta hlut í Loftleiðum Cabo Verde og fjárfestahópurinn 30 prósenta hlut. - kij

Auk Önnu og Inga Jóhanns, sem er stjórnarformaður Loftleiða Cabo Verde, situr Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Ice­landic, sem fyrr í stjórn eignarhaldsfélagsins.

Systkinin eru ásamt Björgólfi á meðal eigenda Kjálkaness, systurfélags Gjögurs, sem fer meðal annars með 34 prósenta hlut í Síldarvinnslunni og 10 prósenta hlut í Íslenskum verðbréfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×