Erlent

Cliff Barnes úr Dallas látinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ken Kercheval með þáverandi eiginkonu sinni Avu Fox árið 1987.
Ken Kercheval með þáverandi eiginkonu sinni Avu Fox árið 1987. Getty/Ron Galella
Ken Kercheval, leikarinn sem varð hvað frægastur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Dallas, er látinn. Hann var 83 ára og lést á hjúkrunarheimili í heimabæ sínum í Indianaríki á sunnudaginn. Talið er að banamein hans hafi verið lungnabólga.

Kercheval þessi fór með hlutverk olíujöfursins Cliff Barnes í þáttunum, sem voru meðal vinsælasta sjónvarpsefnis heims á níunda áratug síðustu aldar. Barnes var sonur Willard „Digger“ Barnes og Rebeccu Barnes, auk þess sem hann var eldri bróðir Pamelu Barnes Ewing, sem Dúkkulísurnar sungu um á sínum tíma.

Í Dallas var Barnes erkióvinur J.R. Ewing, sem leikinn var af Larry Hagman, en þeir voru einu persónurnar sem birtust í öllum 14 þáttaröðunum á árabilinu 1978-1991. Hagman lést árið 2012.

Kercheval var auk þess einn þeirra fimm leikara sem jafnframt leikstýrði Dallasþætti, en hann leikstýrði þáttum í 13 og 14 þáttaröð Dallas.

Hann fæddist í bænum Wolcottville í Indiana þann 15. júlí árið 1935 og nældi sér í háskólagráðu í söng- og leiklist. Kerechval reykti mikið alla tíð og var hluti annars lungna hans fjarlægður eftir að Kerehval var greindur með lungakrabbamein árið 1994. Hann lætur eftir sig sjö börn og sex barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×