Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðandi með meiru, hefur ásamt fleirum sett á flot netsíðu til að afla stuðnings við annaðhvort nýtt flugfélag eða klúbb sem útvegar félagsmönnum ódýrt flug.
Meðal samstarfsaðila Ástþórs segir Jóel Kristinsson vera portúgalska flugfélagið JetBanus sem leggja myndi til þær Airbus-þotur sem Ástþór hefur sagst hafa aðgang að.
„Við erum ekki að fara út í að reka flugfélag heldur er þetta viðskiptahugmynd varðandi það að setja upp allan viðskiptagrunninn þannig að það gæti verið stofnað flugfélag í kring um það. JetBanus er í því að leigja út vélar,“ segir Jóel Kristinsson, talsmaður FlyIcelandic. „Við viljum sjá áhugann hjá fólki og fyrirtækjum á að taka þátt í því. Við förum aldrei af stað ef það verður enginn áhugi.“
Nánar útskýrir Jóel að FlyIcelandic geti annaðhvort orðið að nýju flugfélagi eða klúbbi – eða jafnvel að samblandi af því tvennu. „Þetta er ákveðin hugmyndafræði sem er alveg ný sem snýst um að búa til grunn fyrir flugfélag að starfa á.“
Á síðunni flyicelandic.is er fólk hvatt til að skrá sig og fá þannig ódýra flugmiða og fríðindi. „Þú öðlast rétt á að kaupa EcoMiles sem eru flugmílur á heildsöluverði og njóta ýmissa fríðinda sem FlyIcelandic farþegi,“ segir á síðunni. Með „samhentu átaki“ sé vonast til að „fylla upp í það skarð sem myndaðist í íslenskum flugsamgöngum við fall WOW air.“

Um sjötíu manns og fjögur fyrirtæki höfðu að sögn Jóels skráð sig á síðu FlyIcelandic síðdegis í gær, skömmu eftir að hún var opnuð. Talsverður áhugi sé hjá fyrrverandi starfsfólki WOW air. Hann undirstrikar að engin skuldbinding fylgi því að skrá sig.
„Við erum ekki að biðja um fjármagn eða neitt. Þetta er ekki hópfjármögnun eins og er. Við erum bara að sjá hvort fólk er tilbúið að taka þátt. Ef það er mikil þátttaka þá er hægt að fara í svoleiðis fjármögnun,“ segir Jóel. Fólk þurfi ekki endilega að taka þátt sem fjárfestar heldur einfaldlega styðja málstaðinn.
Aðspurður segir Jóel ekkert hafa verið skoðað á hvaða flugleiðum til og frá landinu helst þurfi að bæta við framboði af sætum. „Við erum aðallega að reyna að sjá hver áhuginn er fyrir að taka þátt í svona. Síðan er hægt að fara í það ef af verður,“ svarar hann.
Aðrir aðilar, eins og til dæmis Hreiðar Hermanns í Stracta hótelum, hafa sagst vera með lággjaldaflugfélag í undirbúningi. Jóel segir áform FlyIcelandic ekki þurfa að stangast á við slíkan rekstur. „Það væri hægt að fara í samstarf við slíka aðila. Það er allt opið í því hvaða leiðir er hægt að fara.“