Maður á fertugsaldri fannst alvarlega slasaður í íbúðarhúsi í Mehamn eftir að lögreglu barst tilkynning um að maður hefði verið skotinn laust fyrir klukkan hálf sex í morgun. Í fréttatilkynningu norsku lögreglunnar kemur fram að maðurinn hafi verið úrskurðaður látinn á vettvangi.
Að sögn lögreglunnar tengdust hinn látni og hinn grunaði, en hún vildi ekki útlista nánar hvers eðlis samband þeirra var.
Norska lögreglan vildi ekki staðfesta þjóðerni mannanna við fréttastofu fyrr í dag fyrr en búið væri að hafa samband við aðstandendur mannsins sem lést.
Hvorki borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins né alþjóðadeild ríkislögreglustjóra gátu veitt fréttastofu upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað.
Klukkan sex í morgun var tilkynnt um yfirgefinn bíl í skurði nálægt Gamvik, um 15 kílómetra frá Mehamn. Lögreglan segist telja bílinn tengjast málinu.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglu sem segir að búið sé að tryggja vettvang glæpsins.
Um ellefuhundruð manns búa í Mehamn en bænastund verður vegna málsins í kirkju bæjarins síðdegis í dag.