Um klukkan hálfellefu í gærkvöldi var ráðist á hlaupara í Elliðaárdalnum. Árásin átti sér stað á Rafstöðvarvegi að því er fram kemur í dagbók lögreglu en ráðist var á manninn þar sem hann var að hlaupa eftir veginum.
Var hann sleginn í höfuðið og honum veittir áverkar. Taldi maðurinn að árásarmennirnir hafi ætlað að ræna hann. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Þá var tilkynnt um innbrot í tóbaksverslun í miðbænum rétt fyrir klukkan fimm í morgun. Hurð var spennt upp, farið inn og vörum stolið. Tveir menn voru handteknir skömmu síðar og þeir vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
