Körfubolti

Kino fyrstur til að ná 50 í framlagi í úrslitakeppninni í heilan áratug

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kinu Rochford skorar á móti KR.
Kinu Rochford skorar á móti KR. Vísir/Daníel
Þórsarinn Kinu Rochford átti magnaðan leik með Þorlákshafnarliðinu í gær þegar það jafnaði metin í 1-1 í undanúrslitaseríu sinni á móti Íslandsmeisturum KR.

Kinu Rochford var í gær fyrsti leikmaðurinn í úrslitakeppni Domino´s deildar karla í ár til að ná 50 framlagsstigum í einum leik.

Það þarf líka að fara miklu lengra aftur í tímann til að finna annað eins framlag í leik á stóra sviðinu. Enginn náði 50 framlagsstigum í einum leik í fyrra eða í átta úrslitakeppnum þar á undan.

Kinu Rochford var með nákvæmlega 50 í framlagi fyrir leikinn sem Þórsliðið vann með tólf stiga mun, 102-90. Fyrir leikinn hafði aðeins einn náð 40 í framlagi í úrslitakeppninni í ár en Pétur Rúnar Birgisson var með 40 framlagsstig fyrir Tindastól á móti Þór í átta liða úrslitunum.

Þetta er hæsta framlag leikmanns í einum leik í úrslitakeppninni síðan 9. apríl 2009 eða í nákvæmlega tíu ár. Þá var Nick Bradford með 51 í framlagi í leik á móti KR í úrslitaeinvíginu. Bradford var þá með 47 stig, 9 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta í DHL-höllinni.

Kinu skoraði 29 stig stig í leiknum á móti KR í gær, tók 17 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Hann var einnig með 8 fiskaðar villur sem telja þó ekki inn í framlagið. Sex KR-ingar fengu villu fyrir að brjóta á miðherja Þórsliðsins en það voru þeir Pavel Ermolinskij (3), Jón Arnór Stefánsson, Julian Boyd, Mike Di Nunno, Finnur Atli Magnússon og Kristófer Acox.

Það gerir aftur á móti góð nýting og Kinu nýtti 71 prósent skota sinna utan af velli (10 af 14) og setti niður 82 prósent víta sinna (9 af 11).

Kinu Rochford á nú þrjá af sex framlagshæstu leikjum úrslitakeppninnar í ár.

Hæsta framlag í einum leik í úrslitakeppninni 2019:

1. Kinu Rochford, Þór Þ. á móti KR - 50

2. Pétur Rúnar Birgisson, Tindastól á móti Þór Þ. - 40

3. Kinu Rochford, Þór Þ. á móti Tindastól - 38

4. Nikolas Tomsick, Þór Þ.á móti Tindastól - 36

4. Michael Craion, Keflavík á móti KR - 36

6. Kinu Rochford, Þór Þ. á móti KR - 35

6. Julian Boyd, KR  á móti Keflavík - 35

8  Michael Craion, Keflavík á móti KR - 34

9. Pavel Ermolinskij, KR á móti Keflavík - 33

10. Jordy Kuiper, Grindavík á móti Stjörnunni - 32

10. Mindaugas Kacinas, Keflavík á móti KR - 32




Fleiri fréttir

Sjá meira


×