Erlent

Bann við þungunarrofi stenst ekki suðurkóreska stjórnarskrá

Andri Eysteinsson skrifar
Frá kvenréttindagöngu í Seoul, höfuðborgar Suður-Kóreu
Frá kvenréttindagöngu í Seoul, höfuðborgar Suður-Kóreu Getty/Bloomberg
Stjórnarskrárdómstóll Suður-Kóreu úrskurðaði í dag að lög frá árinu 1953, sem banna þungunarrof, stæðust ekki stjórnarskrá.

Lögin sem hafa verið í gildi í 66 ár, hafa verið harðlega gagnrýnd á undanförnum árum og var dómstóllinn nálægt því að segja þau andstæð stjórnarskrá árið 2011. CNN greinir frá.

Með lögunum áttu konur sem gengust undir þungunarrof á hættu á að vera dæmdar til árs fangelsisvistar, auk fjársekta. Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn sem aðstoðuðu eða framkvæmdu aðgerðina áttu einnig yfir höfði sér fangelsisvist.Þrátt fyrir lögin hafa suðurkóreskar konur gengist undir þungunarrof, en þá með ólöglegum hætti.

Í rannsókn sem unnin var af Suðurkóreskum heilbrigðisyfirvöldum, kváðust 20% kvenna á aldrinum 15-44 hafa gengist undir aðgerðina. 66% kvenna í sama aldursflokki sögðu lögin vera ósanngjörn.Eftir mikla baráttu réttindahóp tók stjórnarskrárdómstóll löggjöfina til skoðunar og ákvarðaði aukinn meirihluti dómstólsins að löggjöfin stæðist ekki stjórnarskrá.

Því er ljóst að suðurkóreskum þingmönnum verður falið það verkefni að endurskoða löggjöfina. Ferlið þarf samkvæmt suðurkóreskum lögum að vera búið í árslok 2020. Þegar hefur verið ákveðið að þungunarrof eftir 20. Viku verði enn ólöglegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×